Innlent

Veðrið um verslunarmannahelgina: „Ekkert sem peysa eða úlpa getur ekki reddað“

Bjarki Ármannsson skrifar
Hér má sjá veðurspá fyrir nokkrar helstu útihátíðir helgarinnar.
Hér má sjá veðurspá fyrir nokkrar helstu útihátíðir helgarinnar. Mynd/Fréttablaðið
Verslunarmannahelgin gengur nú í garð og hefur veðurspáin oft verið verri. Þrátt fyrir heldur vætusamt sumar, stefnir ekki í mikla rigningu um helgina.

„Það verður eiginlega keimlíkt veður um allt land,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. „Það verður hægur vindur og stöku skúrir en á flestum stöðum verður bjart. Það er helst allra syðst sem hvessir á sunnudaginn og mesta úrkoman verður kannski þar, þótt hún verði aldrei það mikil. Þá verður aðallega þurrt fyrir austan.“

Samkvæmt spá Veðurstofu er von á nokkuð svölu veðri um land allt. Kuldapollur kemur úr norðri og hiti verður á bilinu sjö til þrettán stig. Hlýjast verður suðvestan til á landinu, þar sem hiti mun kannski ná upp í um fimmtán stig, en svalast á Norðurlandi.

„Það er samt ekkert sem peysa eða úlpa getur ekki reddað,“ segir Birta Líf. Sömuleiðis hefur veðurspáin í Vestmannaeyjum oft verið verri fyrir verslunarmannahelgina.

„Það verður hægur vindur framan af hjá þeim í Eyjum og einhverjar skúrir,“ segir Birta Líf. „Á sunnudaginn er kannski heldur búist við rigningu og það hvessir svolítið þar.“

Birta Líf segir að í raun sé ekki von á eftirminnilega góðu eða eftirminnilega slæmu veðri um verslunarmannahelgina og enginn landshluti afgerandi betur staddur en annar.

„Þetta er ekkert mikið veður,“ segir hún. „Ef þetta væri venjuleg helgi, held ég að allir væru bara ljómandi glaðir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×