Lífið

Vatnið í mikilvægu hlutverki í Dexter

Dexter finnur fingraför á flösku með vatni frá Þorlákshöfn. Jón Ólafsson segir kunningsskap sinn og fólks í Hollywood koma flöskunni í vinsæla sjónvarpsþætti.
Dexter finnur fingraför á flösku með vatni frá Þorlákshöfn. Jón Ólafsson segir kunningsskap sinn og fólks í Hollywood koma flöskunni í vinsæla sjónvarpsþætti.
„Flott, ég verð að sjá þennan þátt,“ segir athafnamaðurinn Jón Ólafsson, stjórnarformaður og annar af stofnendum Icelandic Water Holdings.

Vatn Jóns og félaga, Icelandic Glacial, er í mikil­vægu hlutverki í fjórða þætti í fimmtu seríu Dexter, sem sýnd er um þessar mundir í Bandaríkjunum.

Dexter, sem Michael C. Hall leikur, notar fingraför sem hann finnur á flöskunni til að bera kennsl á nýja persónu í þáttunum sem Julia Stiles leikur.

Óbeinar vörukynningar (e. product placement) af þessu tagi eru gríðarlega stór iðnaður, en þrátt fyrir það segist Jón ekki greiða neitt fyrir að koma flöskunni fyrir í vinsælum sjónvarpsþáttum. „Ég á svo mikið af vinum og kunningjum í Hollywood eftir þrjátíu ára starfsemi í þessum skemmtanabransa,“ segir Jón. „Ég sendi þeim vatnið í von um að þeir setji það í þættina og það virkar alltaf. Þeir eru þyrstir og ég gef þeim vatn.“

Icelandic Glacial vatninu hefur brugðið fyrir í vinsælum þáttum á borð við Desperate Housewives, Entourage, Numbers og The Big Bang Theory, en milljónir manna um allan heim fylgjast vikulega með þáttunum.

Er ekki mjög óvenjulegt að þurfa ekki að greiða fyrir auglýsingu af þessu tagi?

„Það er vanalega greitt fyrir þetta. En ég á svo marga kunningja sem eru bara rólegir,“ segir Jón að lokum. - afb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×