Innlent

Vatnauðlindina þarf að nýta betur

Linda Blöndal skrifar
Íslendingar hafa margfalt meiri aðgang að fersku vatni en önnur Norðurlönd. Þó er landið eftirbátur þeirra þegar kemur að frárennslismálum og er átaks þörf þar segir forstjóri Umhverfisstofnunar og aukin meðvitund um vatnsauðlindina er nauðsynleg. Alþjóðlegur dagur vatnsins er í dag.  



Milljarður hefur ekki aðgang að góðu vatni.

Hreint vatn og öruggur aðgangur að því er grundvallarlífsskilyrði og oft nefnt bláa gullið. Á degi vatnsins er vakin athygli á því á margvíslegan hátt á hverju ári að undirlagi Sameinuðu þjóðanna. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin gefur út að hver þurfi að lágmarki 20 lítra af vatni á dag til neyslu og hreinlætis. Hins vegar er talið að um 1,1 milljarður af um 6 milljörðum jarðarbúa hafi ekki aðgang að heilnæmu vatni.



Tvö hundruð lítrar í sturtunni

Meðvitund um hve mikið vatn við notum í daglegar athafnir er ekki mjög almenn. Með því að sturta niður í klósettinu getur allt að 14 lítrar af hreinu vatni þurft og tíu mínútna sturta tekur 200 lítra, svo fá dæmi séu nefnd. Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar segir þetta kalla á ábyrgð. „Þegar maður á stóra auðlind þá ber maður líka ábyrgð.  Okkar er ábyrgðin að halda þessari auðlind stórri og góðri til framtíðar og það er ljóst að ef það verða mengunarslys nálægt okkar vatnsbólum þá getur það haft gríðarlega slæmar afleiðingar fyrir okkur. Þetta er allta sama hugmyndin um að við eigum ekki að sóa heldur nýta vel og bera virðingu fyrir auðlindum okkar", sagði Kristín Linda á Stöð 2.



Viljum gera betur með auðlindina

Um 532 þúsund rúmmetrar eru af vatni á hvern einstakling á Íslandi miðað við þrjá rúmmetra á hvern mann í Danmörku. Íslendingar hafa margfalt meiri aðgang að hreinu vatni en það þýðir þó ekki að eitthvað megi teljast sóun á hreinu vatni að mati Kristínar Lindu. „Við erum auðvitað að nota vatnsauðlindina til að taka við mengun og hjá Íslendingum eru skólpmálin því miður ekki komin eins langt og við vildum sjá það og það er ákveðin sóun á vatnsauðlindinni". 



Átak í skólpmálum

„Í okkar dreifðari byggðum erum við ekki komin nógu langt. Það er alveg ljóst að við þurfum að fara í ákveðið átak, eins og við Mývatn þar sem við höfum áhyggjur af skólpmálum. Þetta er verkefni sem við verðum að fara í", sagði Kristín Linda. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×