Skoðun

Vatnajökulsþjóðgarður fyrir alla

Umræða um nýstofnaðan Vatnajökulsþjóðgarð í Morgunblaðinu og víðar hefur verið afar neikvæð og villandi. Tilteknir útivistarhópar hafa gagnrýnt tillögur í stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins um takmarkanir á ferða- og athafnafrelsi og spurt í því sambandi fyrir hvern þjóðgarðurinn sé. Þessi grein er innlegg stjórnar þjóðgarðsins í umræðuna.

Hvað er þjóðgarður og fyrir hverja er hann?

Samkvæmt náttúruverndarlögum nr. 44/1999 eru þjóðgarðar landsvæði sem eru svo sérstæð um landslag, lífríki eða sögu að ástæða þykir til að vernda þau og veita almenningi aðgang að þeim eftir tilteknum reglum. Tvíþætt meginhlutverk þjóðgarða, náttúruvernd og útivist, getur valdið hagsmunaárekstrum. Þjóðgarðastjórnun miðar að því að draga úr árekstrum og samræma ólík sjónarmið. Þetta er gert m.a. með fræðslu, umgengnisreglum, svæðaskiptingu og lagningu gönguslóða.

Þjóðgarðar eru aðeins ein tegund náttúruverndarsvæða. Önnur slík svæði eru m.a. víðerni, friðlönd, náttúruvætti og fólkvangar. Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin IUCN, sem Ísland og flest önnur vestræn ríki eru aðilar að, hafa flokkað náttúruverndarsvæði og þróað viðmið sem þau þurfa að uppfylla til að standa undir nafni. Verndarflokkar IUCN eru nú sex og eru þjóðgarðar í flokki tvö næst á eftir strangfriðuðum svæðum og víðernum. Helstu stjórnunar- og verndarmarkmið þjóðgarða samkvæmt IUCN (sjá t.d. www.unep-wcmc.org/protected_areas/categories/eng/ii.pdf) eru:

• Að vernda náttúruleg svæði sem gildi hafa á lands- og heimsvísu svo almenningur fái notið þeirra til andlegrar upplyftingar, í vísindaskyni, til menntunar, útivistar og ferðalaga.

• Að viðhalda eftir föngum upprunalegum landslagsheildum, vistkerfum og lífverustofnum.

• Að stýra umferð gesta svo þeir geti notið upplifunar, fræðst og stundað útivist án þess að náttúra þjóðgarðsins skaðist að ráði.

• Að koma í veg fyrir nýtingu sem gengur gegn markmiðum friðlýsingar.

• Að viðhalda virðingu fyrir náttúru þjóðgarðsins og þeim sjónarmiðum sem liggja að baki friðlýsingunni.

• Að virða rétt frumbyggja og annarra íbúa þjóðgarðs og aðliggjandi svæða til hefðbundinna nytja, svo fremi þær gangi ekki í berhögg við önnur markmið friðlýsingarinnar.

Ljóst má vera af þessari upptalningu að þjóðgörðum er ætlað margvíslegt hlutverk. Eðli málsins samkvæmt geta þeir þó ekki uppfyllt allar útivistarþarfir fólks þar sem ástundun tiltekinna tómstunda getur stangast á við önnur markmið, svo sem um verndun tegunda og vistkerfa, verndun víðerna og friðhelgi.



Breyttar áherslur í þjóðgarðastjórnun

Vægi náttúruverndar í þjóðgörðum miðað við útivist hefur verið breytilegt eftir löndum og þróast í tímans rás. Í bandarískum þjóðgörðum, sem lengi hafa verið fyrirmynd annarra, hefur náttúruvernd löngum haft algeran forgang. Þar eru skotveiðar t.d. bannaðar með öllu þótt í einstöku tilfellum hafi þurft að grípa til grisjunar dýrastofna vegna offjölgunar. Á síðustu áratugum hefur hugmyndafræði varðandi rekstur og stjórnun þjóðgarða á Vesturlöndum þó verið að breytast í þá átt að taka æ meira tillit til hefðbundinna nytja og hefða heimamanna.

Þessarar þróunar hefur einnig gætt hér á landi. Fyrir stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs voru hér fjórir þjóðgarðar: Þingvallaþjóðgarður (1930), þjóðgarðurinn í Skaftafelli (1967), þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum (1973) og þjóðgarðurinn Snæfellsjökull (2001). Í þeim öllum voru skotveiðar bannaðar og búfjárbeit einnig í tveimur þeirra fyrst nefndu. Búfjárbeit hefur verið heimil í hluta Jökulsárgljúfra og í öllum þjóðgarðinum Snæfellsjökli.

Við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs var sérstaklega tekið mið af breyttri hugmyndafræði. Hefðbundnum nytjum, útivist og margvíslegum áhugamálum almennings hefur verið gefið meira rými þar en í nokkrum öðrum þjóðgarði hér á landi. Sem dæmi má nefna að búfjárbeit og veiðar, þ.m.t. skotveiðar, eru heimilar á yfir helmingi lands utan jökuls. Akstur á snjó er heimill víðast hvar. Sumarakstur er leyfður á um 50 skilgreindum leiðum sem ekki hafa talist til hefðbundinna vega, samtals um 700 km. Landeigendur mega aka utan vega við landbúnaðarstörf svo framarlega sem ekki hljótast spjöll af (sjá tillögu að stjórnunar- og verndaráætlun og meðfylgjandi kort á: www.vatnajokulsthjodgardur.is/starfsemi/a-dofinni/nr/368).

Þær takmarkanir sem lagðar eru til varðandi veiðar, akstur og aðrar athafnir manna innan þjóðgarðsins eru aftur á móti afar hófsamar. Þar á meðal er tillaga um 117 km² veiðigriðland á Snæfellsöræfum (3,4% af heildarveiðilendum garðsins) og tillaga um lokun örfárra vegslóða, samtals innan við 50 km. Staðreyndin er því sú að Vatnajökulsþjóðgarður er að þessu leyti „alþýðuvænni" en nokkur annar þjóðgarður hér á landi. Hávær umræða um að verið sé að úthýsa þjóðinni er því ábyrgðarlaus og alröng.

Anna Kristín Ólafsdóttir

Björn Ármann Ólafsson

Böðvar Pétursson

Elín Heiða Valsdóttir

Hjalti Þór Vignisson

Magnús Hallgrímsson

Ólöf Ýrr Atladóttir

Þórunn Pétursdóttir

fulltrúar í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×