Innlent

Varúð í ávísun Ritalins til barna

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Notkun Íslendinga á lyfjum sem innihalda metýlfenidat er meira en tvöföld meðalnotkun annarra Norðurlandaþjóða.
Notkun Íslendinga á lyfjum sem innihalda metýlfenidat er meira en tvöföld meðalnotkun annarra Norðurlandaþjóða.
Nýverið var birt greinargerð um rannsóknir á virkni metýlfenidat-lyfja við athyglisbresti í börnum og unglingum í hinu virta Cochrane Review. Greinargerðin birtist 25. nóvember og greinir frá skorti á rannsóknum á ágæti lyfjanotkunar við ADHD í börnum.

Vísindamenn teymisins lýsa áhyggjum af aukaverkunum methyl­phenidate-lyfja á móti hóflegri gagnsemi lyfjanna við athyglisbresti. Aukaverkanir skráðar hjá börnum eru svefnvandamál, minni matarlyst og sjóntruflanir. Niðurstaða Cochrane-teymisins er að ávísa ætti lyfinu Ritalin af varkárni til barna og unglinga og fylgjast vel með notkun þess.

Dr. Morris Zwi, einn höfunda greinargerðar um rannsóknina og barna- og unglingageðlæknir hjá Whittington í London, sagði niðurstöðurnar mikilvægar fyrir heilbrigðisstarfsmenn og foreldra barna með ADHD.

„Væntingar okkar um meðferðina eru meiri en þær ættu að vera, og þótt greinargerð okkar sýni einhverja sönnun nytsemi þeirra þá ættum við að hafa í huga að sú niðurstaða er ekki áreiðanleg. Það sem við þurfum enn eru góðar rannsóknir sem meta áhættu með tilliti til nytsemi lyfjanna,“ sagði Zwi.

Magnús Jóhannsson læknir hjá Embætti Landlæknis segir niðurstöður nýrrar úttektar Cochrane Review ekkki koma á óvart.Mynd/Ragnar Th. Sigurðsson
Magnús Jóhannsson, læknir hjá Landlækni, segir vel þekkt að lyfið gagnist ekki öllum. Hann bendir á að fimmtíu ára reynsla sé af lyfinu.

„Metýlfenidat er gamalt lyf og er áratuga reynsla af notkun þess, verkunum og aukaverkunum,“ segir Magnús. Lengi hafi verið vitað að að metýlfenidat gagnist ekki öllum með ADHD. Fram hafi komið tölur eins og 70 eða 80 prósent. 

„Svipað gildir um aukaverkanir sem eru vel þekktar en þær algengustu eru lystarleysi, svefntruflanir og höfuðverkur. Auk þessa er lyfið ávanabindandi og eftirsótt af fíklum,“ segir Magnús.

Niðurstaða úttektarinnar var að lyfið gagnist við ADHD en á grundvelli fyrirliggjandi gagna/rannsókna sé ekki hægt að meta með vissu hve mikið það gagnist og kemur þessi niðurstaða ekki á óvart.

Höfundar greinarinnar höfðu líka áhyggjur af aukaverkunum, sem að vísu eru allvel þekktar vegna þess hve lyfið hefur verið mikið notað og lengi. Öll lyf þarf að meta með tilliti til verkana og aukaverkana og þannig tryggja að hvert lyf geri meira gagn en skaða og er þessi úttekt innlegg í þá umræðu.“

Notkun Íslendinga á lyfjum sem innihalda metýlfenidat er meira en tvöföld meðalnotkun annarra Norðurlandaþjóða. Metýlfenidat (Ritalin) hefur verið á markaði hér síðan 1965 og forðalyfin (Ritalin Uno og fl.) síðan 2002. Magnús segir að þrátt fyrir efasemdir um gagnsemi lyfsins muni það ekki hafa áhrif á notkun lyfsins til skamms tíma.

„Mín niðurstaða er því sú að umrætt Cochrane-Review sé gott innlegg en fátt komi þar á óvart og það muni ekki hafa áhrif á notkun þessa lyfs, að minnsta kosti ekki til skamms tíma litið,“ segir Magnús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×