Skoðun

Varúð: Dugnaður

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Meintur dugnaður Íslend­inga er eitt af því sem við notum til þess að belgja okkur út með og hefja okkur yfir aðrar þjóðir. Íslenskur dugnaður og dýrkun á honum er grundvallarmisskilningur og í raun þrúgandi þjóðarböl.

Íslenskur dugnaður er alveg aftengdur skynsemi, heiðarleika og gagnrýnni hugsun. Gengur út á að setja hausinn undir sig og böðlast eins og tuddi á amfetamíni. Bægslagangurinn er mikill, afraksturinn enginn. Nema hrósið: „Hann er nú svo duglegur.“

Duglegt fólk er stórvarasamt, sést ekki fyrir í andskotans djöfulgangi. Alltaf eitthvað voða mikið að gera. Dugnaðarforkarnir láta sig til dæmis ekkert muna um að keyra til tunglsins og til baka mörgum sinnum í mánuði.

Til hvers? Að sóa tíma og skilja eftir sig hyldjúp kolefnisspor? Dugnaðarforkarnir eru aðallega iðnir og ofvirkir við að þvælast fyrir, skara eld að eigin köku og fremja alls konar heimskupör og umhverfisspjöll og láta einhverja aðra, komandi kynslóðir og náttúruna sem er um það bil að verða gjaldþrota, um að borga fyrir öll „afköstin“.

Dugnaður er djöfullegur, leti er góð. Sá lati nennir ekki að spilla náttúrunni með framkvæmdum, ekki að vera alltaf að þrífa í kringum sig með eitruðum hreinsiefnum og ekki rýkur sá lati út að keyra þegar ástandið er appelsínugult og endar fastur í skafli, aðeins til trafala og vandræða.

Er ekki ráð að reyna að slaka aðeins á? Hætta að hossa hinum duglegu sem eru fyrst og fremst til ógagns og óþurftar? Hægja aðeins á snúningshraðamælinum og fara færri kílómetra en fleiri?




Skoðun

Sjá meira


×