Fótbolti

Vardy fyrsti Leicester-maðurinn í 31 ár sem skorar fyrir England

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty
Jamie Vardy skoraði sitt fyrsta landsliðsmark þegar England vann 2-3 sigur á heimsmeisturum Þýskalands í vináttulandsleik á Ólympíuleikvanginum í Berlín í kvöld.

Fyrir utan að vera fyrsta landsliðsmark Vardys er markið sem hann skoraði í kvöld einnig merkilegt fyrir þær sakir að þetta er í fyrsta sinn í 31 ár sem leikmaður Leicester skorar fyrir enska landsliðið.

Sá síðasti til afreka það á undan Vardy var Gary Lineker en hann skoraði tvö mörk í 5-0 sigri Englands á Bandaríkjunum í júní 1985.

Lineker minntist á þetta á Twitter í kvöld en hann var líkt og aðrir Englendingar í skýjunum með sigurinn á Þjóðverjum.

Lineker skoraði þrjú mörk fyrir England á meðan hann var leikmaður Leicester en hann var seldur til Everton sumarið 1985. Lineker skoraði alls 48 mörk í 80 landsleikjum.

Vardy lék sinn fimmta landsleik í kvöld en hann hefur átt frábært tímabil með Leicester City og skorað 19 mörk í ensku úrvalsdeildinni, tveimur minna en Tottenham-maðurinn Harry Kane sem var einnig á skotskónum í Berlín í kvöld.

Leicester er með fimm stiga forskot á toppi úrvalsdeildarinnar þegar sjö leikir eru eftir. Vardy á því góða möguleika á verða Englandsmeistari með Leicester, eitthvað sem Lineker tókst ekki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×