Viðskipti innlent

Varðveita beri traust og sjálfstæði bankans

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir að sjálfstæður Seðlabanki stuðli að stöðugleika og vexti.
Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir að sjálfstæður Seðlabanki stuðli að stöðugleika og vexti. vísir/gva
Það er mikilvægt að varðveita sjálfstæði og traust á Seðlabanka Íslands, segir í yfirlýsingu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem kynnt var í gær.

Þar segir að breytingar á lögum um bankann eigi að taka mið af þeim umbótum sem voru gerðar á lagaumhverfi bankans árið 2009, með Peningastefnunefnd og áreiðanleika í ákvarðanatöku.

Sendinefndin, undir forystu Peters Dohlmans, lauk í gær tveggja vikna heimsókn sinni til Íslands, en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir reglulega úttekt á efnahagslífi aðildarlanda sinna.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að sjálfstæður og áreiðanlegur Seðlabanki geri ákvarðanatöku betri, sem stuðli svo aftur að efnahagslegum stöðugleika og vexti. Það sé síðan forsendan fyrir því að auka efnahagslegt frelsi.

Eins og fram hefur komið vinnur nefnd á vegum Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, að endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands. Nefndin hefur ekki lokið störfum en reiknað hefur verið með að skipað verði að nýju í stöðu seðlabankastjóra þegar nýju lögin taka gildi.

Í yfirlýsingu sendinefndarinnar segir að dregið hafi úr hagvexti á árinu, en Dohlman segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geri ráð fyrir 2 prósenta hagvexti á þessu ári og þriggja prósenta hagvexti á þeim næsta. Samkvæmt tölum Hagstofunnar var hagvöxtur á fyrstu níu mánuðum ársins engu að síður einungis 0,5 prósent.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að horfur í efnahagsmálum séu jákvæðar og það ætti að styðja við áætlun um losun fjármagnshafta. „Ísland hefur aldrei verið í betri stöðu frá hruni,“ sagði Dohlman á blaðamannafundinum í gær. Það væru þó nokkrir áhættuþættir, eins og miklar skuldir hins opinbera.

Eftirmál fjármálaáfallsins séu enn nokkur og hefur það áhrif á hagvöxt og dregur úr ytri stöðugleika. Stærsta verkefnið sé að auka frelsi í flæði fjármagns og að gera samskipti fjármálamarkaða á Íslandi við alheiminn eðlileg á ný. „Við erum ánægð með skref stjórnvalda í þessu skyni á undanförnum mánuðum,“ segir Dohlman. Þau hafi sýnt að skilningur sé á hvert verkefnið er og hvaða leikir eru í stöðunni.

„Við vonum að LBI-samningurinn geti orðið hvati fyrir frekari skref. Og muni hafa langvarandi jákvæð áhrif á hagkerfið,“ sagði Dohlman. Þar vísar hann í samning á milli slitabús gamla Landsbankans og nýja Landsbankans sem leiddi til þess að slitabúið fékk heimild til að greiða 400 milljarða króna til forgangskröfuhafa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×