Innlent

Varðstjóri á Litla-Hrauni dæmdur fyrir áreitni

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
VÍSIR/GVA
Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag dóm yfir varðstjóra á Litla-Hrauni sem var í Héraðsdómi Suðurlands í mars dæmdur í eins mánaðar skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa áreitt konu sem starfaði sem fangavörður.

Varðstjórinn og fangavörðurinn höfðu starfað saman í þrettán ár. Honum var gefið að sök að hafa strokið yfir brjóst konunnar utan klæða hinn 11.janúar 2013. 

Málið var kært til lögreglu í apríl 2013 en starfaði varðstjórinn áfram í fangelsinu þrátt fyrir ákæruna. Honum var svo veitt áminning vegna málsins.

Hann bar fyrir sig að hafa verið að dást að nýrri flíspeysu sem fangavörðurinn og fleiri klæddust þann dag. Til umræðu hafði komið hversu mjúkar peysurnar væru og þá hafi hann, í hvatvísi, lagt höndina á öxl konunnar og strokið yfir brjóst hennar. Hann hafi svo gengið út af varðstofunni en nokkru síðar spurst fyrir um konuna vegna verkefnis. Þá hafi honum verið tjáð að hún hefði farið veik heim.

Vitnum að atburðinum bar ekki saman um hvað gerst hefði. Varðstjórinn neitar að hafa gripið um brjóst fangavarðarins og að verknaðurinn hafi verið unninn af ásetningu, og uppfyllti því ekki saknæmisgildi almennra hegningarlaga. Á það féllst dómurinn ekki.

Samkvæmt úrskurði Hæstaréttar verður dómur héraðsdóms óraskaður. Manninum er gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins 661 þúsund krónur og málsvarnarlaun verjanda síns, 439 þúsund. Þá er honum gert að greiða þóknun réttargæslumanns konunnar, samtals 188 þúsund krónur.


Tengdar fréttir

Fangavörður hætti eftir kynferðislega áreitni

Kona sem starfaði sem fangavörður á Litla-Hrauni um árabil er hætt störfum eftir að hún kærði samstarfsmann sinn, sem er varðstjóri, fyrir kynferðislega áreitni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×