Innlent

Varðskipið kallað út vegna hjartveiks skipverja í norsku loðnuskipi

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Varðskipið Þór.
Varðskipið Þór. vísir/daníel
Varðskipið Þór var kallað út um klukkan eitt í dag eftir að beiðni barst frá björgunarmiðstöðunni í Stavanger um aðstoð vegna hjartveiks skipverja um borð í norsku loðnuskipi sem statt var um 115 sjómílur austur af Norðfirði á leið á loðnumiðin. Varðskipið var þá statt í um 58 sjómílna fjarlægð og var komið á vettvang rétt fyrir klukkan hálf fjögur í dag.

Sjúkraflutningamenn úr áhöfninni fóru um borð til að aðgæta sjúklinginn, tekið var hjartalínurit og ástand sjúklingsins metið. Í framhaldi af því var í samráði við þyrlulækni Landhelgisgæslunnar ákveðið að flytja sjúklinginn í land.

Nú halda bæði varðskipið Þór og norska loðnuskipið áleiðis til Neskaupstaðar og er fyrirhugað að þyrla Landhelgisgæslunnar fljúgi síðar til mótsvið skipin og flytji sjúklinginn á sjúkrahús.

Talsvert annríki hefur verið hjá gæslunni í dag. Skömmu eftir að beiðnin barst frá Noregi var óskað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar vegna tveggja slasaðra göngumanna á Skarðsheiði. Þyrlan hélt af stað og var fljótlega komin á slysstað. Þá höfðu björgunarsveitir ekki komist á vettvang og voru samferðamenn hinna slösuðu einir á vettvangi. Aðstæður á slysstað voru erfiðar en greiðlega gekk fyrir áhöfn þyrlunnar að búa um hina slösuðu og flytja þá um borð í þyrluna. Haldið var rakleiðis til Reykjavíkur og lent rúmlega þrjú við Landspítala Háskólasjúkrahús með göngumennina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×