Innlent

Varðmenn Víkurgarðs segja mörk hans rangfærð í deiliskipulaginu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var meðal fundarmanna. Einnig Oddur Helgason ættfræðingur sem er fremstur á myndinni.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var meðal fundarmanna. Einnig Oddur Helgason ættfræðingur sem er fremstur á myndinni. Vísir/stefán
Hópur sem kallar sig Varðmenn Víkurgarðs boðaði í gær til fundar sem svo skoraði einróma á borgarstjórn Reykjavíkur að varðveita hinn forna kirkjugarð Víkurkirkju allan sem almenningsgarð, alveg að austustu mörkum garðsins.

„Þess er krafist að rannsakað sé og leitt til fulls í ljós hvar austurmörk hans nákvæmlega liggja,“ segir í ályktun fundarmanna.

Um er að ræða garðinn sem er fyrir aftan Landsímahúsið og er oft kallaður Fógetagarður.

Ósk Lindarvatns ehf. um breytt deiliskipulag á Landsímareitnum vegna hótelbyggingar var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar á dögunum.

Fundarmenn kröfðust þess í gær að borgarstjórn heimili ekki að bygging rísi í gamla kirkjugarðinum, „eins og uppi eru áform um“.

Þá kröfðust fundarmenn þess að skipulagsyfirvöld leiðréttu „villu í deiliskipulagsuppdrætti Landsímareits, þar sem mörk Víkurgarðs eru ranglega færð og aðeins látin ná að vesturhlið Landsímahússins“.

Er sagt í yfirlýsingunni að skipulagsyfirvöldum sé vel kunnugt um að svo sé ekki. Sýnt hafi verið fram á að austurmörk garðsins nái langleiðina út að Thorvaldsensstræti.

En Varðmennirnir eru ekki þeir einu sem hafa fjallað um málið undanfarið. Á kirkjuþingi í síðustu viku var skorað á yfirvöld að koma í veg fyrir framkvæmdir sem raski gröfum í Víkurgarði.

„Niðurlagðan kirkjugarð má ekki nota til neins þess sem óviðeigandi er að dómi prófasts. Ekki má þar jarðrask gera né reisa nein mannvirki.“  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×