Erlent

Varði árásirnar á Aleppo

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Sergei Lavrov á hægri hönd forsetans Vladimirs Pútín.
Sergei Lavrov á hægri hönd forsetans Vladimirs Pútín. vísir/epa
Bandaríkin hlífa hryðjuverkasamtökunum Jabhat Fateh al-Sham, áður þekkt sem al-Nusra Front, í tilraunum sínum til að steypa Bashar al-Assad Sýrlandsforseta af stóli. Þetta fullyrti Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í viðtali við BBC í gær.

Lavrov sagði enn fremur að Bandaríkin hefðu brotið það loforð sitt að aðskilja hryðjuverkasamtök frá hófsamari uppreisnarmönnum. „Þeir lofuðu því að hafa það sem forgangsatriði,“ sagði Lavrov.

Þá varði Lavrov einnig loftárásir Rússa á borgina Aleppo. Sagði hann Rússa eingöngu vera að hjálpa ríkisstjórnarher Sýrlands að berjast við hryðjuverkamenn. Samkvæmt mati Sameinuðu þjóðanna hafa um 400 almennir borgarar fallið í átökunum um borgina undanfarnar vikur. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×