Innlent

Varðhald yfir einum sakborningi framlengt í hjartastungumálinu

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Nú situr aðeins einn eftir í gæsluvarðhaldi vegna hnífsstungunnar á Hverfisgötu.
Nú situr aðeins einn eftir í gæsluvarðhaldi vegna hnífsstungunnar á Hverfisgötu. Mynd/Þorgeir Ólafsson
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fer fram á að gæsluvarðhald yfir einum manni verði framlengt til 12. janúar næstkomandi þar sem hann er grunaður um að hafa stungið Sebastian Andrzej Golab á Hverfisgötu þann 23. nóvember síðastliðinn.

Upphaflega voru þrír menn settir í gæsluvarðhald en hinum tveimur hefur nú verið sleppt.

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á beiðni lögreglunnar en lögmaður þess grunaða hefur kært úrskurðinn til Hæstaréttar.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins neitar sakborningurinn sök og segist ekki hafa vitað það þegar Sebastian var stunginn eða hver var að verki. Vopnið sem notað var við árásina hefur ekki enn fundist. Málið er rannsakað sem tilraun til manndráps.

Málið vakti mikla athygli þar sem það þykir kraftaverki líkast að Sebastian sé á lífi. Hann var stunginn í gegnum hjartað og skildi hnífurinn eftir sig gat í hjartanu. Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá var hann fluttur á slysadeild þar sem læknar Landspítala, og þar fremstur meðal jafningja Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir, unnu ótrúlegt björgunarafrek þegar hjarta Sebastians var hnoðað aftur í gang.


Tengdar fréttir

Þakklátur fyrir að hafa lifað af hnífstungu gegnum hjartað

Sebastian var stunginn í gegnum hjartað á Hverfisgötu fyrir rúmri viku. Með ótrúlegum hætti tókst að bjarga lífi hans og bati hans þykir undraverður. Hann lítur á björgunina sem annað tækifæri og ætlar að lifa lífinu með allt öðrum hætti hér eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×