Viðskipti innlent

Varasamt að veita undanþágu frá gjaldeyrishöftum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Pétur Blöndal þingmaður Sjálfstæðisflokks segir varasamt að veita fyrirtækjum undanþágu frá gjaldeyrishöftum eða forgangsraða sérstaklega þegar kemur afnámi þeirra. Nauðsynlegt sé að gæti jafnræðis í þessum málum.

Eigendur Plastframleiðslufyrirtækisins Promens hafa ákveðið að flytja höfuðstöðvar þess til útlanda eftir að Seðlabanki hafnaði ósk þeirra um undanþágu frá gjaldeyrishöftum.

Almar Guðmundsson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins sagði í kvöldfréttum Stöðvar tvö í gær að þetta væri lýsandi dæmi um skaðsemi gjaldeyrishaftanna. Staðan sé orðin grafalvarleg og viðbúið að fleiri fyrirtæki grípi til sama ráðs ef ekkert verður að gert. Samtökin ætla að óska eftir fundi með forystumönnum ríkisstjórnarinnar vegna málsins en þau vilja að ríkisstjórnin gæti að forgangsröðun þegar kemur að afnámi haftanna.

Pétur Blöndal þingmaður Sjálfstæðisflokks segir nauðsynlegt að afnema höftin sem allra fyrst en það sé hins vegar varasamt að veita fyrirtækjum sérstaka undanþágu.

„Það er afskaplega varasamt vegna þess að sérhver undanþága hún gefur fordæmi. Það þarf að gæta jafnræðis. Það eru óskaplega margir sem bíða eftir því að fá að skipta krónum yfir í gjaldeyri og við ráðum ekkert við það ef allir fara í einu,“ segir Pétur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×