Erlent

Varar við gereyðingu Aleppo

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermenn sækja fram í Aleppo.
Hermenn sækja fram í Aleppo. Vísir/AFP
Staffan de Mistura, erindreki Sameinuðu þjóðanna varðandi Sýrlandi, varaði í dag við því að gereyðing Aleppo væri möguleg. Hann kallaði eftir því að Rússar og stjórnarherinn hætti árásum sínum á borgina og bauðst jafnvel til að fylgja vígamönnum þaðan persónulega.

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, hefur í kjölfarið gefið út að leggi mennirnir niður vopn sín, megi þeir yfirgefa borgina. Hins vegar verði árásum á hann ekki hætt. Harðir bardagar geysa nú í borginni á milli fylkinga og hefur stjórnarherinn sótt fram.

Mistura sagði í dag að hermenn stjórnarhersins hafi setið um borgina í mánuð. Matvæli og aðrar nauðsynjar eru af skornum skammti þar.

„Staðreyndin er sú að eftir tvo til tvo og hálfan mánuð verður austurhluti Aleppo rústir einar ef fram heldur sem horfir. Þúsundir borgarar, ekki hryðjuverkamenn, munu láta lífið og fjölmargir munu særast,“ sagði Mistura.

Rússar og stjórnarherinn hafa haldið því fram að þeir séu að gera árásir gegn samtökunum Jabhat Fateh al-Sham, sem gengu undir nafninu Nusra front áður en þeir slitu formlegum tengslum við al-Qaeda.

Mistura segir hins vegar að af um átta þúsund vopnuðum mönnum í Aleppo, séu um 900 meðlimir JFS.

Hundruð hafa látið lífið í austurhluta borgarinnar þar sem uppreisnar- og vígamenn ráða ríkjum. Um 275 þúsund almennir borgarar eru á svæðinu. Uppreisnarmennirnir segjast þó ekki ætla að yfirgefa borgina og segja tilboð Assad vera gabb.

Í samtali við Reuters fréttaveituna segir talsmaður Fastaqim, uppreisnarhóps sem er með menn í Aleppo, að Aleppo sé sérstök. Þeir geti ómögulega gefist upp.

Bandaríkin hafa einnig vafasemdir um tilboð AssadJosh Earnest, talsmaður Barack Obama, segir fáránlegt að stjórnarherinn gefi nú í skyn að þeim sé nú annt um almenna borgara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×