Handbolti

Varamarkvörðurinn lokaði markinu í sigri á Ólympíumeisturunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Denisa Dedu var hetja kvöldsins.
Denisa Dedu var hetja kvöldsins. Vísir/AFP
Rúmenía og Svartfjallaland unnu leiki sína í dag í annarri umferð í riðlakeppni EM kvenna í handbolta í Svíþjóð. Rúmenar unnu óvæntan sigur á Ólympíumeisturum Rússa og settu riðil Norðmanna í smá uppnám.

Tékkar og Rússar urðu að sætta sig við tap eftir að hafa unnið leiki sína í fyrstu umferðinni. Þetta voru fyrstu sigurleikir hjá bæði Svartfellingum og Rúmenum og bæði lið fögnuðu vel í leikslok.

Það var mikil spenna í leik Svartfellinga og Tékka en Svartfellingar unnu 28-27 eftir að hafa verið einu marki yfir í hálfleik, 13-12.







Rúmenía vann fimm marka sigur á Ólympíumeisturum Rússa, 22-17, eftir að hafa verið 11-9 yfir í hálfleik.

Denisa Dedu fékk óvænt tækifæri í marki rúmenska landsliðsins á móti Ólympíumeisturum Rússa í kvöld og átti stórkostlegan leik. Dedu varði alls 22 skot í leiknum eða 56 prósent skota sem komu á hana.  Hún er aðeins 22 ára gömul og hafði aðeins spilað 20 landsleiki fyrir EM.

Dedu hélt meðal annars marki sínu hreinu í tólf mínútur í fyrri hálfleik (þann leikkafla vann rúmenska liðið 5-0 og komst í 7-2) og svo í þrettán mínútur í þeim síðari (2-0 fyrir Rúmeníu).

Eliza Buceschi og Cristina Neagu voru markahæstar í rúmenska liðinu með sjö mörk en Buceschi skoraði meðal annars fjögur fyrstu mörk Rúmena í seinni hæalfleik. Neagu skoraði tvö mörk í lokin þegar Rúmenar kláruðu leikinn.

Sigur Rúmena er athyglisverður fyrir Þórir Hergeirsson og stelpurnar hans í norska landsliðinu sem unnu Rúmena í fyrstu umferð og mæta Rússum í lokaumferðinni. Norðmenn mæta Króatíu seinna í kvöld.

Rússneska liðið vann Ólympíugullið í ágúst eftir að hafa slegið Noreg út í framlengdum undanúrslitaleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×