Innlent

Varað við stormi suðaustantil í dag

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Veðurstofan hefur varað við stormi fram undir hádegi syðst á landinu og suðaustanlands í dag
Veðurstofan hefur varað við stormi fram undir hádegi syðst á landinu og suðaustanlands í dag Vísir/Vilhelm
Veðurstofan hefur varað við stormi fram undir hádegi syðst á landinu og suðaustanlands í dag. Útlit er fyrir vestan og norðvestan 8 til 15 metra á sekúndu en 15 til 23 metra suðaustantil.

Þá snýst í suðvestan 8-15 seint í dag með éljagangi en léttir til á Norðaustur- og Austurlandi. Hægari suðvestanátt á morgun með dálitlum éljum sunnan og vestanlands. Kólnar smám saman í veðri, hiti í kringum frostmark í kvöld og á morgun.

„Í nótt fór lægð til austurs meðfram suðurströndinni og af hennar völdum var vestan ofsaveður á miðunum suður af landinu. Á landi sleppa menn nokkuð vel við þessa lægð. Hann slær staðbundið í storm syðst og einnig á stöku stað suðaustanlands. Annars staðar verður vindur hægari og víða verður vart við úrkomu. Síðdegis fjarlægist lægðin landið hratt og þegar líða fer að kvöldi tekur við suðvestan strekkingur með éljagangi, en það léttir til á Norðaustur- og Austurlandi,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.

Samkvæmt Vegagerðinni er hálka á Sandskeiði, Hellisheiði, Þrengslum og Mosfellsheiði og eitthvað um hálkubletti í uppsveitum Suðurlands en greiðfært nær sjónum.

Á Vesturlandi og Vestfjörðum er víða hálka eða hálkublettir og snjóþekja á nokkrum fjallvegum.

Snjóþekja eða hálka er á vegum á Norðurlandi og éljagangur eða snjókoma.

Á Austurlandi er greiðfært á Héraði en hálka eða snjóþekja á fjallvegum.  Greiðfært er með suðausturströndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×