Innlent

Varað við stormi á Austfjörðum: Búist við fimm stiga frosti

Stefán Árni Pálsson skrifar
Vegir eru greiðfærir um allt sunnanvert landið.
Vegir eru greiðfærir um allt sunnanvert landið. Vísir/Anton
Búist er við stormi austan Öræfa og á sunnanverðu Austfjörðum til kvöldsins og getur vindhraði farið yfir tuttugu metra á sekúndu.

Dregur getur úr vindi og ofankomu á morgun og birtir til S- og V-lands. Frost víða 0 til 5 stig, en hlánar syðst og austast eftir hádegi. Hiti 0 til 5 stig sunnan- og austan-til á morgun.

Búast má við vetrarfærð og erfiðum akstursskilyrðum víða á norðan og austanverðu landinu til morguns, en þá dregur talsvert úr vindi og ofankomu. Búast má við snörpum vindhviðum undir Vatnajökli til kvölds.

Vegir eru greiðfærir um allt sunnanvert landið. Hálkublettir og éljagangur er á Hellisheiði.

Á Vesturlandi eru flestir vegir greiðfærir en ófært er á Bröttubrekku og hálka og skafrenningur á Holtavörðuheiði og í Svínadal en hálkublettir eru á Fróðárheiði og Laxárdalsheiði.

Á Vestfjörðum er hálka og snjóþekja. Þæfingur og skafrenningur er á Þröskuldum. Ófært er í Árneshrepp sem og á Klettshálsi og Steingrímsfjarðarheiði. Lokað er um Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðs sem þar féll en hreinsun stendur yfir.

Það er víða hálka, snjóþekja, skafrenningur og éljagangur á Norðurlandi og mokstur stendur yfir á flest öllum aðalleiðum.  Þæfingsfærð og skafrenningur er í Héðinsfirði, Ólafsfjarðarvegi, Tjörnesi og á milli Þórshafnar og Bakkafjarðar.

Á Austurlandi er hálka eða snjóþekja og snjókoma á flestum leiðum og sumstaðar stórhríð. Lokað er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum sem og á Fjarðarheiði og ófært á Fagradal og á Vatnsskarði eystra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×