Innlent

Varað við meðferð elds - gróður eins og púðurgeymsla

Kristján Már Unnarsson skrifar
Skógurinn er eins og púðurgeymsla eftir langvarandi þurrka, segir slökkviliðsstjóri Borgarbyggðar, sem segir eldnotkun úti í náttúrunni sérlega hættulega um þessar mundir.

Almannavarnir prófa á morgun viðbragðskerfi fyrir Skorradal vegna skógarelda. Um sjöhundruð sumarbústaðir eru í Skorradal en almannavarnir héldu í gærkvöldi fund á Hvanneyri þar sem kynnt var viðbragðsáætlun fyrir íbúa og sumarhúsaeigendur.

Bjarni Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri í Borgarnesi, segir að ef menn gefi sér að þrír einstaklingar séu að meðaltali í hverju húsi, og eldur komi upp í Skorradal, blasi við almannavá. Landslagið þar sé bratt og eldur sæki mjög hratt upp bratta. Flóttaleiðir úr dalnum séu ekki góðar og löngu hafi verið tímabært að gera neyðaráætlun fyrir svæðið.

Klukkan eitt á morgun verður boðunarkerfi prófað með því að tilkynning er send í alla GSM síma á svæðinu og þar nærri.

Slökkviliðsstjórinn segir þessa langvarandi þurrka að undanförnu skapa hættu og segir skemmst að minnast elds sem blossað hafi upp sumarhúsahverfi í Galtarholtstungu fyrir hálfum mánuði.

„Þetta var bara eins og að kveikja í bensínpala," segir Bjarni.

Hann rifjar upp Mýraeldana fyrir sex árum og segir sinuna afar hættulegan eldmat. Þá sé mosinn núna þannig að hann molni af þurrki. Hann hefði aldrei trúað því að sjá tveggja mannhæða eldvegg geisast áfram tvo og hálfan kílómetra á klukkutíma, eins og á Mýrum.

„Það hefði ekki nokkurt mannlegt vald geta stoppað það."

Slökkviliðsstjórinn óttast að margir geri sér ekki grein fyrir því hvað eldnotkun geti verið hættuleg við þessar aðstæður og nefnir sérstaklega einnota grill og varðelda, sem menn séu að kveikja inni í sumarhúsahverfum, við allskyns aðstæður, - sumir drukknir eða illa fyrir kallaðir.

„Að vera með eld í Skorradal í þurrkatíð, þetta er svona svipað og að fara með kerti í gegnum púðurgeymslu."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×