Innlent

Varað við hálku víða um land

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/anton

Þau eru nokkuð snögg umskiptin og með kólnandi veðri um land allt eru líkur á éljum, þó ekki austanlands. Bleytan á vegyfirborði frýs og launhált verður, einkum sunnan- og vestantil.

Á vef Vegagerðarinnar segir að hálkan sé heldur að aukast á Suður- og Suðvesturlandi. Þá sé hálka á Hellisheiði og Mosfellsheiði en hálkublettir á Sandskeiði og í Þrengslum. Eins hálkublettir á köflum á Suðurlandi.

Á Holtavörðuheiði er hálka og hvasst. Eins er hált á Bröttubrekku en vegir á Vesturlandi eru víða ýmist auðir eða aðeins með hálkublettum. Hálka er á köflum á Vestfjörðum, en snjóþekja á Þröskuldum. Flughált er á Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði er ófær. Þá er hálka eða hálkublettir allvíða á Norðurlandi.

Jafnframt vekur Vegagerðin athygli á hugsanlegum umferðartöfum á Miklubraut og Kringlumýrarbraut á morgun milli klukkan 9.30 til 16 vegna framkvæmda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×