Innlent

Varað við hættu vegna notkunar skíðadreka

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Notkun skíðadreka hefur að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsneti farið vaxandi hér á landi.
Notkun skíðadreka hefur að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsneti farið vaxandi hér á landi. VÍSIR/AFP
Landsnet varar við hættu sem getur skapast vegna notkunar svokallaðra skíða- eða svifdreka. Drekar þessir eru notaðir til þess að draga skíða- og brettafólk áfram yfir snjóbreiður. Sérstök hætta er þegar íþróttin er stunduð og nálægt háspennumannvirkjum, sér í lagi háspennulínum. 

Notkun skíðadreka hefur að því er fram kemur á vefsíðu Landsnets farið vaxandi hér á landi.

Hvers konar snerting eða tenging við háspennulínur getur verið lífshættuleg og jafnvel orðið mönnum að aldurtila. Flækist tengilína svifdrekanna í háspennulínum kann rafstraumur að hlaupa um tengilínuna og gegnum þann sem við hana er festur.

Því er brýnt fyrir þá sem stunda íþróttina að velja sér leiðir þar sem ekki þarf að þvera háspennulínur ella fella drekana sína tímanlega. Eindregið er mælt með því að nota drekana ekki í minna en 100 metra fjarlægð frá háspennulínum.

Verði óhapp við háspennumannvirki mega aðrir sem eru í för undir engum kringumstæðum nálgast viðkomandi, nema tryggt sé að tengilínan við drekann hafi rofnað og sé þannig úr snertingu við háspennulínu.

Hægt er að leita upplýsinga um aðstæður á einstökum línuleiðum og svæðum með því að hafa samband við stjórnstöð Landsnets eða með því að senda tölvupóst á netfangið: stjornstod@landsnet.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×