Innlent

Varað við hættu á skyndiflóðum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá flóðunum á Siglufirði á síðasta ári.
Frá flóðunum á Siglufirði á síðasta ári. Vísir/Andri Freyr
Veðurstofan varar við flóða- og skriðuhættu á Norðurlandi og á Ströndum á morgun vegna mikillar úrkomu. Í nótt og á morgun ganga skil yfir landið með stífri norðanátt og mikilli úrkomu. Í nótt má búast við talsverðri rigningu austantil á landinu.

Því getur skapast flóða- og skriðuhætta á þessum slóðum. Í aðstæðum sem þessum er ekki hægt að útiloka staðbundin skyndiflóð sem gætu valdið tjóni, til dæmis á Tröllaskaga.

Veðurstofan beinir þeim tilmælum til almennings að huga að holræsum og niðurföllum og gera viðeigandi ráðstafanir.

Veðurhorfur á landinu

Suðaustan 5-10 m/s og skúrir, en bjart norðan- og norðaustantil. Austan 5-10 í kvöld og víða rigning, en talsverð rigning austantil í nótt. Norðaustan og síðar norðan 8-15 á morgun, hvassast á annesjum norðantil og áfram víða rigning, en mikil rigning norðantil á landinu. Hægari vindur sunnantil. Vestlægari og dregur úr vætu A-lands seint á morgun. Hiti 8 til 15 stig í dag, hlýjast um landið norðaustanvert. Hiti 5 til 12 stig á morgun, mildast sunnanlands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:

Norðvestan 5-13 m/s, hvassast norðantil og rigning, en úrkomulítið um landið sunnanvert. Hægari og styttir að mestu upp síðdegis, en vaxandi norðaustan átt þegar líður á kvöldið. Hiti 3 til 11 stig, mildast sunnantil.

Á mánudag:

Allhvöss eða hvöss norðan átt á mánudag. Rigning eða talsverð rigning um landið austanvert, en úrkomulítið vestantil. Hiti 5 til 12 stig.

Á þriðjudag:

Minnkandi norðvestan átt og styttir smám saman upp, fremur hægur vindur um kvöldið. Hiti 5 til 13 stig, mildast sunnanlands.

Á miðvikudag:

Hægt vaxandi suðaustan átt, 8-13 suðvestantil með kvöldinu og skúrir, en annars hægari vindur og að mestu bjart. Hiti 8 til 13 stig að deginum.

Á fimmtudag:

Útlit fyrir austlæga átt. Sums staðar skúrir, en fer að rigna austantil þegar líður á daginn. Milt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×