Innlent

Vara við niðurskurði í viðhaldi á vegum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Forstjóri Samgöngustofu og framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda vara við því að dregið verði úr viðhaldi á þjóðvegum landsins á næsta ári og hvetja stjórnvöld til setja meiri fjármuni í málaflokkinn. Þeir segja að vegakerfið ráði í dag varla við það álag sem fylgir vaxandi straumi ferðamanna og að minna viðhald leiði til aukinnar slysahættu.

Vegagerðin þarf mögulega að fresta nauðsynlegum viðhaldsframkvæmdum á næsta ári þar sem ekki gert ráð fyrir nægilegu fjármagni til stofnunarinnar í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var á þriðjudag. Þetta kom fram í máli vegamálastjóra í fréttum Stöðvar tvö í gær.

Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda varar við þessari þróun.

„Við höfum verulega áhyggjur af þessu. Það er ljóst að það er búið að vera að spara umfram það sem eðlilegt er á undanförnum árum til viðhalds og nýbyggingar á vegum. Við sjáum það að ástand vega er verulega slæmt og þetta er farið að koma niður á öryggi vegfarenda,“ segir Runólfur.

Undir þetta tekur Þórólfur Árnason forstjóri Samgöngustofu.

„Öryggi í samgöngum er forvörn, fræðsla og mannvirki saman. Við verðum að beita þeim ráðum sem við höfum til þess að fækka slysum og það gerum við ekki nema með auknu og bættu viðhaldi á samgöngumannvirkjum og forvörnum og fræðslu,“ segir Þórólfur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×