Innlent

Vara við góðgerðarsölu á trjám frá Afríku

Sveinn Arnarson skrifar
Skjáskot af heimasíðu globetree.com.
Skjáskot af heimasíðu globetree.com. Skjáskot/globetree.com
Íslensk kona hefur boðið öðrum konum að fjárfesta í trjám í Afríku og fá fjárhæðina greidda margfalt til baka í formi arðgreiðslna á 20 árum. Hún segir ekkert óeðlilegt við fyrirtækið. Býður konum upp á kennslu í fjármálalæsi en í lok fyrirlestrarins býður hún upp á þessi kostakjör.

Eigandi fyrirtækisins hefur áður verið viðriðinn pýramídasvindl.

Í hópnum Góða systir bauð Þórdís Viðarsdóttir öllum að mæta í kennslu í fjármálalæsi þeim að kostnaðarlausu. Í lok kennslunnar bendir Þórdís á þá lausn að fjárfesta í trjám í Afríku. Það gengur þannig fyrir sig, að í gegnum fyrirtækið Better Globe sem staðsett er í Noregi, kaupir þú tré fyrir 17 evrur.

Fyrirtækið tryggir að eigandi trésins fái til baka á næstu 20 árum rúmar 200 evrur eða tólfföldun höfuðstólsins.

Fundirnir voru konunum að kostnaðarlausu en í haust verða framhaldsaðalfundir með lögfræðingi og þá munu aðstandendur fundarins rukka inn á fundina.

Eigandi fyrirtækisins Better Globe er Rino Solberg, sem var viðriðinn pýramídasvindl fyrirtækisins Green Planet. Hann hefur áður hafnað því að fyrirtækið sé pýramída­svindl en neitað að sýna hvernig fyrirtækið sé uppbyggt.

Þórdís Viðarsdóttir hefur stýrt fundunum á Íslandi. „Má ég ekki hafa kennslu heima hjá mér og segja frá og benda fólki á að það eigi möguleika á því að fjárfesta í trjám. Lífeyrissjóðir eru að fjárfesta í trjám,“ segir Þórdís.

„Við þurfum að bjarga jörðinni og benda á þetta og byggja upp Afríku.“

Teitur Atlason, varaformaður Neytendasamtakanna
Teitur Atlason, varaformaður Neytendasamtakanna, hvetur fólk til að vera á varðbergi gagnvart svindlurum. Sé eitthvað boð of gott til að vera satt, er það oftast raunin.

„Það eru svindlarar alls staðar, líka á netinu og í hópnum Góða systir. Við verðum að vera á varðbergi gagnvart svindlurum alls staðar. Þarna er verið að blanda saman hjálparstarfi og pýramídasvindli og ómerkilegra verður það varla,“ segir Teitur.

Bendir hann fólki á að hafa samband við Neytendasamtökin og leita réttar síns. „Líklegt er að fólk sjái það fjármagn aldrei aftur sem það hefur lagt í svona starfsemi.“

Þórdís segist vera að gera þetta í sjálfboðaliðastarfsemi og af hreinni hugsjón. Þegar hún er spurð að því hvort hún hagnist af því fjárhagslega að fá aðra til að fjárfesta í trjám í gegnum fyrirtækið segir hún það hennar einkamál.

„Það kemur þér bara ekkert við. Þeir sem vinna á Fréttablaðinu, Eimskip og hjá ríkinu, þetta eru allt pýramídar svo það er enginn munur á þessu.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. júní 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×