Innlent

Vara við „Tinder“ fyrir börn á Íslandi

Sveinn Arnarsson skrifar
Börn eru sérstaklega varnarlaus á netinu.
Börn eru sérstaklega varnarlaus á netinu. NordicPhotos/Getty
Borið hefur á áhyggjum foreldra og talsmanna grunnskóla af smáforritinu Yellow sem hægt er að sækja í alla snjallsíma. Börn geta notað forritið til að kynnast öðrum börnum á svipaðan hátt og fullorðnir nota forritið Tinder.

Áhyggjurnar lúta að því að óprúttnir aðilar geti nýtt sér þessa leið til að komast í samband við óhörðnuð börn.

Skjáskot af forritinu sem um ræðir.
Ekkert aldurstakmark er fyrir notkun á þessu smáforriti og hægt er að tengjast fólki í nágrenni við sig. Barnaheill telja það skipta miklu máli að foreldrar viti hvað börn þeirra séu að gera bæði í tölvunni og í snjallsímum sem og að fræða þau um hvernig nota eigi tæknina sér í vil.

„Barnaheill hvetja foreldra til að tala opinskátt við börn sín um örugga netnotkun og vera meðvituð um þær hættur sem geta skapast í samskiptum við ókunnuga á netinu. Mikilvægt er að brýna fyrir börnum að gefa aldrei upp persónuupplýsingar til ókunnugra og vera meðvituð um að allt efni sem sent er öðrum eða sett er á netið sé ógjörningur að uppræta eða eyða af netinu,“ segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla.

Hún brýnir fyrir fólki að tilkynna til lögreglu ef barn hefur verið tælt eða það fengið klámfengið efni sent. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×