Erlent

Vara Assad við beitingu efnavopna

Samúel Karl Ólason skrifar
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands.
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands. Vísir/AFP
Hvíta húsið hefur varað Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, við því að beita efnavopnum aftur í Sýrlandi. Bandaríkin segjast búa yfir upplýsingum um að mögulega sé verið að skipuleggja aðra notkun slíkra vopna gegn almennum borgurum í Sýrlandi og að slíkar aðgerðir myndu hafa alvarlegar afleiðingar.

Samkvæmt AP fréttaveitunni sagði Sean Spicer, talsmaður Hvíta hússins, að Bandaríkin hefðu komist á snoðir um að undirbúningur aðgerðarinnar svipaði til þess þegar Assad-liðar beittu saríngasi gegn borgurum í bænum Khan Sheikhoun í apríl.

Sú árás varð til þess að Bandaríkin skutu 59 eldflaugum að flugvelli stjórnarhers Sýrlands. Bandaríkin sögðu að flugvélinni sem notuð var til árásarinnar hefði verið flogið þaðan.

„Eins og fyrir liggur eru Bandaríkin í Sýrlandi til að ganga frá Íslamska ríkinu, en hins vegar, ef herra Assad fremur annað fjöldamorð með efnavopnum, mun hann og her hans gjalda hátt verð,“ sagði Sean Spicer samkvæmt Washington Post.

Spicer veitti ekki frekari upplýsingar, en samkvæmt heimildum AP innan öryggisstofnanna Bandaríkjanna kom yfirlýsingin þeim í opna skjöldu. Hins vegar segir einn heimildarmaður fréttaveitunnar að upplýsingar hafi borist um að stjórnarherinn væri að blanda efnavopn fyrir árás.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×