Enski boltinn

Var þetta Istanbul II á Anfield í gærkvöldi?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Liverpool fagna sigurmarkinu.
Leikmenn Liverpool fagna sigurmarkinu. Vísir/Getty
Liverpool komst í undanúrslit Evrópudeildarinnar í fótbolta í gær eftir stórkostlegan seinni hálfleik í seinni leik sínum á móti þýska liðinu Borussia Dortmund.

Dortmund komst í 2-0 í fyrri hálfleik og í 3-1 í byrjun seinni hálfleiks og í bæði skiptin þurfti Liverpool að skora þrjú mörk til að komast áfram.

Það tókst hinsvegar. Philippe Coutinho minnkaði muninn í 3-2 á 66. mínútu, Mamadou Sakho jafnaði metin á 78. mínútu og Dejan Lovren skoraði síðan sigurmarkið í uppbótartíma.

Liverpool vann því leikinn 4-3 og því samanlagt 5-4. Þessi leikur og þetta kvöld fer í sögubækur Liverpool og enska blaðið The Sun sló upp leiknum sem framhaldssögu af einum dramatískasta sigri félagsins.

Fyrirsögn The Sun í morgun var Istanbul II en þar var vísað til þess þegar Liverpool vann Meistaradeildina fyrir rétt tæpum ellefu árum síðan. Liverpool mætti þá ítalska liðinu AC Milan í úrslitaleiknum á Atatürk-Ólympíuleikvanginum í Istanbul.

AC Milan skoraði strax á 1. mínútu og var síðan komið í 3-0 í hálfleik. Paolo Maldini og Hernán Crespo (2 mörk) skoruðu mörkin og útlitið var mjög svart fyrir Liverpool.

Steven Gerrard (54. mínúta), Vladimír Smicer (56.mínúta) og Xabi Alonso (60. mínúta) skoruðu hinsvegar þrjú mörk á sex mínútna kafla og úrslitin réðust á endanum í vítakeppni.

Jerzy Dudek, markvörður Liverpool, varði þá tvær vítaspyrnur frá leikmönnum AC Milan þar á meðal þá síðustu frá Andrij Schewtschenko.  Liverpool var því búið að vinna Meistaradeildina og þeir stuðningsmenn Liverpool sem upplifðu þetta kvöld í Istanbul munu aldrei hætta að tala um það ekki frekar stuðningsmennirnir sem voru á Anfield í gær.

Eflaust hafa einhverjir verið á báðum þessum leikjum sem er mögnuð staðreynd ef satt reynist.

Það má sjá forsíðu The Sun hér fyrir neðan sem og nokkrar af öðrum forsíðum ensku blaðanna í morgun.

Mögulegir mótherjar Liverpool í undanúrslitunum eru spænsku liðin Sevilla og Villarreal eða úkraínska liðið Shakhtar Donetsk. Það verður dregið í dag.


Tengdar fréttir

Klopp: Dásamlegt kvöld

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var að vonum í skýjunum eftir 4-3 sigur Rauða hersins á Borussia Dortmund í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×