Innlent

Var talsmaður þroskaskerts manns og stal hundruðum þúsunda frá honum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn stal tæplega 700 þúsund krónum af mjög fötluðum og þroskaskertum manni.
Maðurinn stal tæplega 700 þúsund krónum af mjög fötluðum og þroskaskertum manni. vísir/valli
Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt 25 ára gamlan karlmann í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að svíkja út tæplega 700 þúsund krónur af mjög fötluðum og þroskaskertum manni en hinn dæmdi var persónulegur talsmaður hans og með umboð til að greiða fyrir vörur og þjónustu af reikningi umbjóðanda síns.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að upphæðin nam samtals 681.277 krónum og áttu brotin sér stað á tímabilinu 3. september 2015 til 8. nóvember 2016. Maðurinn millifærði 633.842 krónur af reikningi umbjóðanda síns og inn á eigin reikning. Þá notaði hann debetkort sem var í eigu umbjóðandans og verslaði vörur og þjónustu til eigin nota fyrir 47.435 krónur.

Maðurinn játaði brot sín fyrir dómi og var litið til þess þegar refsing var ákveðin. Þá greiddi maðurinn að fullu tilgreinda fjárhæð ásamt vöxtum og kostnaði fyrir útgáfu ákæru lögreglustjóra. Að auki hefur hann lýst iðrun vegna háttseminnar en í dómnum kemur einnig fram að maðurinn hafi brotið alvarlega trúnað gagnvart fötluðum einstaklingi. Þá hefur hann áður sætt refsingu þegar hann greiddi sekt fyrir þjófnaðarbrot.

Hæfileg refsing var því ákveðin sex mánuðir skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára en dóm héraðsdóms má sjá í heild sinni hér




Fleiri fréttir

Sjá meira


×