Handbolti

Var spurð hvort hún vildi eiga barnið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Katrine Lunde í leik á Ólympíuleikunum í Ríó á síðasta ári.
Katrine Lunde í leik á Ólympíuleikunum í Ríó á síðasta ári. vísir/getty
Katrine Lunde, einn besti markvörður heims, segir að ungverska stórliðið Györ hafi sett óeðlilega pressu á hana þegar hún tilkynnti að hún væri barnshafandi sumarið 2014.

Þunganir handboltakvenna hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu eftir mjög svo umdeild ummæli danska þjálfarans Jan Pytlick.

Pytlick, sem þjálfar kvennalið OB, sagðist á dögunum vera orðinn pirraður á því að þungunum leikmanna hans. Þrír leikmenn OB hafa orðið óléttar á tímabilinu og Pytlick hefur takmarkaðan húmor fyrir því.

Ummæli þjálfarans ollu miklu fjaðrafoki og leikmannasamtökin í Danmörku gagnrýndu þau m.a. harkalega.

Lunde, sem hefur leikið undir stjórn Þóris Hergeirssonar í norska landsliðinu, hefur nú stigið fram og greint frá samskiptum sínum við stjórnarmenn Györ þegar hún tilkynnti þeim að hún væri ólétt sumarið 2014. Að sögn Lundes var hún spurð hvort hún vildi eiga barnið.

„Ég var í áfalli yfir því að þeir skildu spurja slíkrar spurningar, sérstaklega þar sem ég var 34 ára á þessum tíma,“ sagði Lunde í samtali við Dagbladet í Noregi.

„Þótt þeir hafi ekki spurt mig beint út hvort ég vildi fara í fóstureyðingu var það í raun það sem þeir báðu mig um. En ég hugsaði ekki um það. Ég þráði að eignast barn,“ bætti Lunde við. Markvörðurinn nýtti sér svo klásúlu í samningi sínum við Györ til að yfirgefa félagið vegna framkomu þess.

Lunde, sem leikur núna með Rostov-Don í Rússlandi, fordæmir ummæli Pytlicks um óléttu leikmanna.

„Ég hélt við værum lengra komin árið 2017, sérstaklega hér á Norðurlöndunum. Ég varð fyrir vonbrigðum með ummæli hans. Þetta er einkamál sem vinnuveitendur eiga ekki að hlutast til um,“ sagði Lunde.

Jan Pytlick nennir ekki fleiri óléttum leikmönnum.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×