Innlent

Var sagt upp þjónustu og sett í algjöra óvissu

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Aileen fylltist kvíða þegar henni var tilkynnt að það væri verið að taka af henni þjónustuna og henni finnst óvissan um framhaldið óþægileg.
Aileen fylltist kvíða þegar henni var tilkynnt að það væri verið að taka af henni þjónustuna og henni finnst óvissan um framhaldið óþægileg. Fréttablaðið/Anton
„Það að fá stuðningsþjónustu er orðið eins og að vinna í happdrætti,“ segir Aileen Soffía Svensdóttir, formaður Átaks, félags fólks með þroskahömlun. Hún hefur sjálf lögbundinn rétt á stuðningsþjónustu frá Reykjavíkurborg en hefur eingöngu fengið hana í rúma átta mánuði á síðastliðnum þremur árum.

Í Fréttablaðinu í síðustu viku kom fram að fimm hundruð manns séu á biðlista eftir stuðningsþjónustu hjá Reykjavíkurborg. Nafn Aileen mun bætast við á listann í næstu viku.

„Ég fékk þjónustu í rúman mánuð árið 2013, en missti hana svo. Í janúar síðastliðnum fékk ég loksins aftur þjónustu eftir tveggja ára bið, en ég mun missa hana í næstu viku. Ég fékk símtal í sumar þar sem mér var sagt að það væri verið að taka af mér þjónustuna því það væru ekki til peningar og manneskjan væri að hætta. Þetta hefur valdið mér miklum kvíða,“ segir Aileen.

Þjónustan sem Aileen þarf á að halda kallast frekari liðveisla og er lögbundin þjónusta við fatlað fólk. Þjónustan er í formi stuðnings til daglegs lífs sem á að efla sjálfstæði og mæta þörfum hvers og eins. Hún getur snúist um aðstoð við skipulag á heimili, innkaup, eldamennsku, læknisheimsóknir og svo framvegis. Aileen fékk stuðning heim einu sinni í viku.

„Ég er með umsókn samþykkta frá borginni og hef lögbundinn rétt á þessari þjónustu. Ég, og fjölmargir aðrir, fæ bara svarið að það séu ekki til peningar. Það á ekki að koma mér við, eða öðru fötluðu fólki, hvernig sveitarfélagið skipuleggur fjármál sín. Svo er sagt að það þurfi að skoða málin og taka þetta í skrefum. En það á ekkert að þurfa að skoða þetta eða taka í skrefum. Þetta er ekki flókið, þetta er okkar réttur.“



Aileen segir þetta ástand fara illa í mjög marga og að hætta sé á að fólk einangrist.

„Það geta skapast ný vandamál og stærri. Í stað þess að efla fólk er hætta á að það sé brotið niður. Maður missir alla trú á kerfið og nú er ég sett enn einu sinni í óvissu, sem er óþægilegt. Ör starfsmannaskipti eru líka erfið upp á traustið. Þar að aukitekur á að vera alltaf að hringja á skrifstofuna og minna á sig. Ég hef fengið mig fullsadda af þessu og ákvað að fá mér réttindagæslumann út af málinu og er þessa dagana að íhuga mín réttindi.“

Mörg mál liggja á borði réttindagæslumanna

„Það er mjög alvarlegt að fatlað fólk þurfi að fara í málsóknir til að fá lögbundna þjónustu,“ segir Auður Finnbogadóttir, réttindagæslumaður fatlaðs fólks í Reykjavík.

Auður segir nýfallinn dóm um túlkaþjónustu vera fordæmi en þar er sagt að stjórnarskrárvarinn réttur til þjónustu sé fjárlögum æðri. Auður segir sum mál vera kæranleg í úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála en aðrir séu að íhuga einkamálssóknir.

„Á mörgum stöðum er þörfin mjög mikil. Málið er einfalt. Fólk á rétt á aðstoð til að geta lifað sjálfstæðu lífi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×