Enski boltinn

Var nuddaður nakinn sem unglingur af manni sem var ákærður fyrir kynferðisofbeldi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Matthew Le Tissier er sá frægasti sem hefur opnað sig um kynferðisofbeldið.
Matthew Le Tissier er sá frægasti sem hefur opnað sig um kynferðisofbeldið. vísir/getty
Matthew Le Tissier, fyrrverandi leikmaður Southampton og enska landsliðsins, var nuddaður nakinn sem unglingur af manni sem var ákærður fyrir kynferðisofbeldi en frá þessu greindi hann í viðtali við BBC. Hann er frægasti maðurinn sem hefur stigið fram og talað um kynferðisofbeldið sem nú skekur enska boltann.

Þetta hófst allt saman fyrir þremur vikum síðan þegar Andy Woodward, fyrrverandi varnarmaður Crewe, steig fram og opinberaði að hann hefði verið kynferðislega misnotaður er hann var táningur í fótbolta. Það kom snjóbolta af stað sem stækkar nú og stækkar.

Sjá einnig:Hvað hefur gerst í kynferðisofbeldismálinu á Englandi?

Le Tissier segir að þessar sögur fótboltamannanna komi sér ekkert á óvart. Sjálfum finnst honum ekki að hann hafi verið misnotaður en það sem átti sér stað hafi verið „mjög rangt“.

Maðurinn sem nuddaði nakinn líkana Le Tissier og fleiri ungra stráka hjá Southampton á níunda áratug síðustu aldar heitir Bob Higgins en hann var ákærður fyrir kynferðisofbeldi árið 1992. Higgins var sýknaður en yfirgaf Dýrlingana. BBC greinir frá því að hann hafi verið látinn fara vegna heimildamyndar þar sem átta fórnarlömb hans sögðu frá ofbeldinu.

„Það voru allir naktir og hent á rúmið hjá honum og fengu stutt nudd. Þetta var mjög óþægilegt og virklega rangt. Maður veit að þetta var rangt núna en sem ungur maður spurði maður sig bara hvort þetta væri eðlilegt,“ segir Le Tissier í viðtali við BBC South.

„Það er ekkert talað um svona hjá strákum á þessum aldri en síðan verður maður fullorðinn og áttar sig á því að þetta var ekki eðlilegt. Ég tel að hugrekki strákanna sem opnuðu á þetta muni leiða til þess að allir sem hafi lent í svona láti í sér heyra,“ segir Matthew Le Tissier.

Sjá einnig:Chelsea reyndi að þagga niður í fórnarlambi misnotkunar

Eftir viðtalið fór framherjinn fyrrverandi á Twitter og bætti við: „Svo því sé haldið til haga þá líður mér ekki eins og ég hafi verið misnotaður. Ekki vorkenna mér. Mér líður vel. Ég sagði bara frá því sem gerðist.“

Southampton er nú í samstarfi við lögregluna sem rannsakar það sem gerðist á þessum tíma. Bob Higgins hefur ekkert viljað tjá sig um málið við fjölmiðla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×