Erlent

Var með uppréttar hendur þegar lögreglan skaut hann til bana

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Gilbert Flores hefur áður komist í kast við lögin.
Gilbert Flores hefur áður komist í kast við lögin. Vísir
Myndbandsupptaka sem rataði í fjölmiðla vestanhafs gefur til kynna að Gilbert Flores hafi verið með uppréttar hendur þegar hann var skotinn til bana af lögregluþjónum í San Antonio á föstudag.

Myndbandið var birt á vefsíðu sjónvarpsstöðvarinnar KSAT í gær. Það má sjá hér að neðan en Vísir varar við myndefninu sem gæti vakið óhug. Töluverð ólga hefur verið í San Antonio, sem er í Texas-fylki, vegna málsins í dag en mannréttindasamtök hafa krafist svara frá lögregluyfirvöldum í borginni vegna málsins.

„Myndbandið sýnir ekki öll samskiptin [milli lögregluþjónanna og Flores] en það vekur svo sannarlega upp alvarlegar spurningar um hvort þessi valdibeiting hafi verið réttlætanleg,“ er haft eftir Terri Burke, framkvæmdastjóra American Civil Liberties Union of Texas, samtaka sem berjast fyrir borgarlegum réttindum.

Flores hefur áður komist í kast við lögin og var vopnaður að sögn lögreglunnar. Lögreglan hafði fengið ábendingu um ónæði frá heimili Flores og grunur lék á að hann hafi ráðist á sambýliskonu sína, sem var með skurð á höfði þegar lögreglumenn komu á vettvang. Lögreglan á að hafa reynt að yfirbuga manninn í tuttugu mínútur áður en gripið var til skotvopnanna.

Af myndbandinu að dæma virðist Flores vera hlaupandi ber að ofan í lágreistu íbúðahverfi áður en hann nemur staðar. Hann virðist rétta upp hendurnar áður en tveir skothvellir heyrast og hann fellur til jarðar.

Myndbandið var tekið upp á farsíma háskólanema sem hafði samband við KSAT-sjónvarpsstöðina sem birti myndbandið.

Flores var flogið á sjúkrahús þar sem hann var úrskurðaður látinn skömmu síðar.

Málið er nú til rannsóknar hjá lögregluyfirvöldum borgarinnar og að sögn talsmanns Alríkislögreglunnar mun embættið fylgjast grannt með rannsókn málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×