Lífið

Var göbbuð í myndband: „Ég ætla ekki að láta þennan mann brjóta mig“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Margrét Ásta heldur ótrauð áfram.
Margrét Ásta heldur ótrauð áfram.
Undanfarinn sólarhringur hefur verið Margréti Ástu leikkonu erfiður. Heimur hennar umturnaðist þegar kanadíski þáttagerðarmaðurinn Andrew Lindy setti myndband af henni naktri á netið.

Margrét segist varla hafa getað farið út fyrir hússins dyr síðan vinkona hennar vakti hana í gærmorgun með þeim skilaboðum að myndbandið af henni væri komið á Youtube. Hún leitaði til sálfræðings sem hún segir hafa hjálpað sér mjög.

Hinn kanadíski Lindy er á bakvið þættina Travel Bum þar sem hann ferðast til ýmissa landa í þeim tilgangi að kynnast konum og gera tilraunir til að sænga hjá þeim. Hann sagði Margréti Ástu frá því að hann væri að gera þætti fyrir bandarísku sjónvarpsstöðina Showtime.

Sjá einnig:Kanadískur maður blekkti íslenskar stúlkur til að fækka fötum á myndbandi

Margréti finnst hún hafa verið svikin af kanadíska þáttagerðarmanninum. Þau hittust fyrst fyrir tveimur árum síðan, þegar Andrew var staddur hér á landi að taka upp þátt. Margrét leit á hann sem vin sinn og treysti því að efni sem hann hafði tekið upp, sem sýndi hana meðal annars nakta, færi ekki á netið.

Í ítarlegu viðtali við Vísi lýsir hún viðbrögðum fólksins í kringum sig, vanlíðaninni sem fylgdi birtingunni og samskiptum við Lindy eftir að myndbandið kom út. En þegar blaðamaður ræðir við Margréti stendur eitt upp úr: Hún er sterk. „Ég ætla ekki að láta þennan mann brjóta mig," segir hún og bætir við:

„Margir hafa bent mér á að ég þarf ekkert að skammast mín. Ég gerði ekkert rangt. Það er hann sem er að brjóta trúnað."

Vinkonan hringdi fimm um morgun

Margrét fékk símtal frá vinkonu sinni klukkan fimm í morgun. Vinkonan tjáði Margréti Ástu að hún hefði séð myndband af henni á Youtube, þar sem hún væri nakin.

„Ég fór bara að hágráta þegar hún sagði mér þetta."

Fréttirnar komu Margréti gjörsamlega í opna skjöldu. Hún hafði verið í samband við hinn kanadíska Lindy og spurt hann hvað hann ætlaði að gera við myndefnið sem hann hefði tekið upp af henni á næstum því tveggja ára tímabili.

Til stóð að efnið færi aðeins á sjónvarpsstöðina Showtime. En Lindy braut það loforð og setti á netið.

„Við vorum í sambandi fyrr í mánuðinum og þá spurði ég hann hvað hann ætlaði að gera við efnið. Hann sagði mér að það færi á netið, sem ég var ekkert sérstaklega sátt við. En hann lofaði því að ég fengi að sjá þáttinn fyrst," segir Margrét. Hún segist hafa haldið að öll nekt yrði tekin út, fyrst að þættirnir væru að fara á Youtube. Lindy sendi Margréti svo aðgangslykil að myndbandinu sem var inni á læstu vefsvæði, áður en þátturinn fór í loftið.

Andrew Lindy
Fékk kvíðakast

„Þegar ég sá þáttinn trúði ég ekki mínum eigin augum. Ég fékk þvílíkt kvíðakast. Ég gat ekki horft á þetta allt. Ég bað hann strax að sýna þetta ekki svona. Þarna voru atriði sem hann tók upp þegar hann sagðist vera að stilla myndavélina. Sem áttu bara að vera „test skot“. Mér fannst þetta alveg hræðilegt og gaf mjög ranga mynd af okkar samskiptum."

Í kjölfarið lofaði Lindy að hann myndi breyta framsetningunni. Hann lofaði öllu fögru. „Hann lofaði að klippa þáttinn upp á nýtt. Og ætlaði svo að senda mér hann þegar hann væri tilbúinn," segir hún og bætir við:

„Ég treysti honum, enda búin að þekkja hann í tvö ár. Þetta kom mér svo á óvart þegar hann setti þáttinn bara á Youtube."

Þakklát fyrir stuðninginn

Margrét Ásta segist vera ótrúlega þakklát fyrir stuðninginn sem hún hefur fengið síðan myndbandið fór í loftið.

Hún segir þetta hafa verið áfall fyrir fjölskylduna sína. „Mamma fékk sjokk og bróðir minn vildi bara fara og finna gaurinn," útskýrir hún.

„Ég hef ekki fengið nein neikvæð komment, bara stuðning. Fólk sem segir mér að bera höfuðið hátt. Ég er ótrúlega þakklát fyrir það. Kannski eru einhverjir að segja eitthvað annað þegar ég heyri ekki til. En mér þykir mjög vænt um stuðninginn."

Margrét bað vini sína að tilkynna myndbandið til Youtube, því í því væri nekt. Stór hópur fólks á netinu gerði það í gærkvöldi og var myndbandið sem sýndi Margréti nakta á endanum fjarlægt.

Verst að fólk heldur að þetta hafi gerst í alvöru

Að sögn Margrétar sýnir Lindy eitthvað allt annað en sannleikann í þáttunum. Í þættinum um Ísland lét hann atburðarásina líta þannig út að hann hefði kynnst Margréti um kvöld á Prikinu og þau farið saman á hótelherbergið hans.

„Sannleikurinn er sá að eftir að við hittumst á Prikinu liðu tíu dagar þangað til að við hittumst aftur. Síðan aðrir fimm þangað til að fórum á stefnumót sem sýnt er í þættinum."

Lindy bauð Margréti svo til Kanada í fyrra þar sem hluti þáttarins var tekinn upp, en Lindy lét það líta þannig út að sá hluti hafi líka verið tekinn upp á Íslandi.

„Þetta var allt leikið. Allt. Við sváfum ekki saman. Þetta var spuni. Ég leit á þetta sem tækifæri fyrir mig og minn leiklistarferil, því þættirnir áttu að fara á Showtime. Ég skildi alveg að það þyrfti að vera nekt fyrir þá stöð, því flestir þættirnir á stöðinni innihalda einhverskonar nekt. Það voru forsendurnar sem mér voru gefnar."

Margrét segist ekki halda að Lindy hafi logið því að Showtime hafi sýnt þáttunum áhuga. Þau ræddu saman eftir að myndbandið kom út og telur Margrét að Showtime hafi í raun og veru sýnt Lindy áhuga.

Margrét Ásta
Hann skammast sín ekkert

Eftir samtal þeirra Margrétar og Lindy eftir að þátturinn kom út segist hún hafa fengið allt aðra mynd af honum. „Hann skammaðist sín ekki neitt. Hann gerði eiginlega bara grín af þessu. Sagði að þessi neikvæða athygli sem ég hefði fengið væri góð fyrir mig."

Sjá einnig:„Skítur skeður eins og maður segir“

Hún segir að Lindy sé ekki maðurinn sem hann láti sig líta út fyrir að vera í þáttunum. Hann láti áhorfendur halda að hann sé kvennagull og að stúlkur hafi farið heim með honum eftir að hafa hitt hann á skemmtistað. „En ég veit sannleikann. Hann laug að mér til að komast nær mér. Hann eltist við mig, sagðist vilja taka myndir af mér naktri fyrir bók sem hann var að gera. Ég neitaði því ítrekað. Síðar sagðist hann þurfa að mynda mig fyrir þáttinn. Ég samþykkti það með semingi en eftir að við skoðuðum myndina saman vorum við sammála um að þær væru of grófar og ættu ekki heima í þættinum. Ég á Facebook-samtölin okkar ég veit hvernig þetta var. Og hann kom ekki hreint fram."

Var á Íslandi fyrir tilviljun

Margrét Ásta er búsett í Los Angeles en hún kom hingað til lands í desemberbyrjun til að taka upp stuttmynd sem hún skrifaði handritið af. En eftir óvænt dauðsfall í fjölskyldunni ákvað hún að fresti tökum. „Þetta var einstaklingur sem var okkur fjölskyldunni nákominn og ég vildi ekki missa af einni sekúndu með fjölskyldunni á þessum tíma."

Jafnvel stóð til að fersta tökum alfarið og var Margrét að gæla við að fara aftur heim til Los Angeles í byrjun janúar. „En ég var komin með svo gott fólk með mér í lið til að gera myndina. Ég ákvað því að klára myndina og tökur hefjast í febrúar. Ef þær hefðu ekki staðið til hefði ég örugglega bara stungið af til Los Angeles um leið og myndbandið birtist."

Hún segir þó kannski fyrir bestu að hún hafi verið hérna og geti tekist á við vandamálið. Því það vísi svolítið í stuttmyndina sem hún er að gera. „Myndin fjallar um stúlku sem lendir í áföllum og svo hvernig hún tekst á við þessi vandamál. Ég vil opna umræðuna um geðsjúkdóma. Við þurfum ekki að skammast okkur fyrir tilfinningar, ég vil reyna að opna þessa umræðu aðeins," segir Margrét ákveðin og segist ætla að halda ótrauð áfram.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×