Körfubolti

Var búin að fagna sigri í 18 deildarleikjum í röð fyrir tapið í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bryndís Guðmundsdóttir og Helena Sverrisdóttir.
Bryndís Guðmundsdóttir og Helena Sverrisdóttir. Vísir/Stefán

Helena Sverrisdóttir og félagar í kvennaliði Hauka í körfubolta töpuðu í gær sínum fyrsta leik á tímabilinu þegar þær heimsóttu Íslandsmeistara Snæfells í Stykkishólm.

Snæfell hélt sinni sigurgöngu áfram og stöðvaði sigurgöngu Haukanna með 75-65 sigri en staðan var jöfn þremur mínútum fyrir leikslok.

Haukaliðið var búið að vinna fyrstu tólf leiki tímabilsins, alla fimm leiki sína í Lengjubikarnum og svo fyrstu sjö leiki sína í Domino´s deildinni.

Landsliðsfyrirliðinn Helena Sverrisdóttir er að spila sitt fyrsta tímabil á Íslandi síðan veturinn 2006-2007. Haukaliðið vann ellefu síðustu deildarleiki sína það tímabil.

Síðasta tap Helenu í deildinni á undan tapinu í gær var á móti Keflavík í Keflavík 17. desember 2006. Það var eina deildatap Haukanna tímabilið 2006-07.

Keflavík vann þann leik 92-85 þrátt fyrir að Helena hafi verið með 31 stig, 13 fráköst og 6 stoðsendingar.

Helena var með 19 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar í gær en hún var ekki stighæst í Haukaliðinu því Pálína Gunnlaugsdóttir skoraði 20 stig.

Helena var því búin að fagna sigri í 18 deildarleikjum í röð þegar kom að leiknum í Hólminum í gær.

Tapleikirnir eiga eitt sameiginlegt þó að Helena hafi ekki verið að spila á móti sama félagi. Bryndís Guðmundsdóttir, leikmaður Snæfells, var einnig í Keflavíkurliðinu sem vann Haukana fyrir rétt tæpum níu árum.

Bryndís átti mjög góðan leik í gær, skoraði 16 stig og spilaði góða vörn á Helenu. Bryndís skoraði meðal annars tveimur stigum meira en allt Haukaliðið (5-3) á síðustu þremur mínútum leiksins sem Snæfellsliðið vann 13-3.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×