Innlent

Vantrú fær ekki aðgang að greinargerð um eðli sóknargjalda

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
vísir/andri marinó
Vantrú fær ekki aðgang að greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, fyrrverandi ríkisendurskoðanda, um fjárhagslegt samband ríkis og kirkju. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Aðdragandi málsins er nokkur en deilt um eðli sóknargjalda. Fulltrúar þjóðkirkjunnar telja að þar séu á ferðinni félagsgjöld á meðan aðrir telja að sóknargjöld séu beint framlag ríkissjóðs til félaganna. Formaður Vantrúar sagði í viðtali við mbl.is í fyrra að verði það niðurstaðan sú að um félagsgjöld sé að ræða gæti verið að félagið muni láta reyna á lögmæti þess fyrir dómstólum enda hafi það í för með sér að þeir sem standa utan trúfélaga greiði hærri skatt þeir sem standa innan þeirra.

Í upphafi síðasta árs fékk Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, Sigurð Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðanda, til að skoða eðli gjaldanna og fjárhagslegt samband ríkis og kirkju. Þegar niðurstaða hans lá fyrir óskaði Vantrú eftir því að fá aðgang að gögnunum en var synjað af innanríkisráðuneytinu. Synjunin byggði á því að greinargerðin hefði verið útbúin fyrir ráðherrafund og væri því undanþegin upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum. Þá niðurstöðu kærði félagið til úrskurðarnefndarinnar.

Í úrskurði nefndarinnar segir að í greinargerð frumvarpsins, sem síðar varð að upplýsingalögum, sé tekið fram að undanþágan gildi um öll gögn sem undirbúin séu fyrir fundi þar sem saman komi tveir ráðherra eða fleiri. Gildir þá einu hvort um formlegan eða óformlegan fund sé að ræða.

„Mikilvægir almannahagsmunir búa að baki því að stjórnvöldum sé gefið færi til stefnumótunar og undirbúnings mikilvægra ákvarðana, þar á meðal til að ræða leiðir í því efni sem ekki eru fallnar til vinsælda og til að höndla með viðkvæmar upplýsingar. Þrátt fyrir að einnig búi ríkir almannahagsmunir að baki því sjónarmiði að starfsemi stjórnvalda sé gegnsæ og opin verður á sama tíma að tryggja möguleika stjórnvalda til leyndar í því skyni að varðveita hagsmuni ríkisins og almennings,“ segir meðal annars í greinargerðinni.

Þó umrædd greinargerð beri það ekki skýrlega með sér að hafa sérstaklega verið tekin saman fyrir ráðherrafund sá úrskurðarnefndin ekki sérstaka ástæðu til að draga mat innanríkisráðuneytisins í efa. Var synjun um aðgang að greinargerðinni því staðfest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×