Innlent

Vantar hátt í 200 blóðgjafir

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Til þess að við getum farið rólega inn í jólin myndi ég vilja sjá um 150-200 poka af blóði,“ segir Jórunn.
"Til þess að við getum farið rólega inn í jólin myndi ég vilja sjá um 150-200 poka af blóði,“ segir Jórunn. vísir/hari
Minna hefur verið um blóðgjafir í þessari viku en vant er fyrir hátíðir eins og þær sem framundan eru og kallar Blóðbankinn því eftir aukinni aðstoð.  Blóðbankinn hvetur fólk til að koma og gefa blóð, en hann þarf 150-200 einingar af blóði (150-200 manns) á næstu dögum til að geta tryggt öryggi sjúklinga yfir jól og áramót.

„Við erum vön því að sjá fólk streyma hér inn, en líklega er það veðrið sem veldur því að svo er ekki þessa dagana. Það er ekki komin upp nein neyðarstaða en til þess að við getum farið rólega inn í jólin myndi ég vilja sjá um 150-200 poka af blóði,“ segir Jórunn Frímannsdóttir, deildarstjóri blóðsöfnunar Blóðbankans. „Það eru margir frídagar framundan og við verðum að fara inn í hátíðarnar með góðan lager,“ bætir hún við.

Hún segir birgðastöðu góða en að mikilvægt sé að eiga nægar öryggisbirgðir. Þær þurfa að geta tryggt öryggi sjúklinga vegna skurðaðgerða, krabbameinsmeðferða og annarrar heilbrigðisþjónustu yfir jól og áramót.

Blóðbankinn við Snorrabraut er opinn á morgun fimmtudag til klukkan 19 en lokaður á föstudag. Þá er hann opinn frá klukkan 11-19 á mánudag og þriðjudag til klukkan 15.

Á Akureyri er opið mánudaga til fimmtudaga frá 08.15 – 14.

Blóðbankabíllinn er nú staddur við ráðhúsið á Selfossi og verður þar til klukkan 17 í dag.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×