Innlent

Vann 70 milljónir í Happdrætti Háskóla Íslands

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Heildarupphæð útgreiddra vinninga á árinu hjá Happdrætti Háskóla Íslands nemur 1.372 milljónum króna.
Heildarupphæð útgreiddra vinninga á árinu hjá Happdrætti Háskóla Íslands nemur 1.372 milljónum króna. Vísir/Valgarður
Einn heppinn miðaeigandi hlaut 70 milljónir króna í milljónaveltu Happdrættis Háskóla Íslands en dregið var í kvöld. Um er að ræða hæsta vinning sem greiddur hefur verið út í íslensku happdrætti á þessu ári.

Þá fékk annar heppinn miðaeigandi 25 milljónir króna í vinning á trompmiða og fjórir fengu 5 milljónir hver.

Alls fengu 3.318 heppnir miðaeigendur vinning í desemberútdrætti Happdrættis Háskóla Íslands og nemur heildarupphæð vinninga um 209 milljónum króna, sem er hæsta upphæð sem greidd hefur verið út í sögu happdrættisins.

„Sjötíu milljónir er hæsti vinningur sem við höfum greitt út á einn miða á þessu ári. Vinningurinn kemur á besta tíma - svona rétt fyrir jólin,” segir Úlfar Gauti Haraldsson, rekstrarstjóri flokkahappdrættis hjá HHÍ í tilkynningu.

„Við erum himinlifandi með útdráttinn enda höfum við aldrei greitt út jafn háa upphæð í vinninga í einum mánuði og hvað þá til svona margra miðaeigenda.”

Heildarupphæð útgreiddra vinninga á árinu hjá Happdrætti Háskóla Íslands nemur 1.372 milljónum króna sem skiptist á milli 39.260 heppinna miðaeigenda. Megin markmið happdrættisins er efling Háskóla Íslands með byggingu húsnæðis og að útvega góðan tækjakost. Um einn milljarður króna af tekjum happdrættisins rennur árlega til Háskóla Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×