Fótbolti

Vandræðalegt tap hjá Kolbeini og félögum í bikarúrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn PEC Zwolle fagna einu af fimm mörkum sínum.
Leikmenn PEC Zwolle fagna einu af fimm mörkum sínum. Vísir/Getty
PEC Zwolle er hollenskur bikarmeistari í fótbolta í fyrsta sinn eftir 5-1 sigur á Ajax í bikarúrslitaleiknum sem fór fram á  Feyenoord-leikvanginum í Rotterdam í dag.

Kolbeinn lék allan leikinn í framlínu Ajax en liðið er á góðri leið með að vinna hollenska meistaratitilinn og er átta sætum ofar en PEC Zwolle í töflunni í deildinni.

Kolbeinn þarf því að bíða lengur eftir fyrsta bikarmeistaratitli sínum með Ajax en félagið vann hann síðast vorið 2010 þegar Kolbeinn var enn leikmaður AZ Alkmaar.

Ajax komst í 1-0 í leiknum með marki bakvarðarins Ricardo van Rhijn en skömmu síðar varð hálftíma töf á leiknum eftir að stuðningsmenn Ajax hentu brennandi blysum inn í vítateiginn fyrir framan mark Ajax.

PEC Zwolle tók öll völd á vellinum eftir að leikurinn fór af stað að nýju og var komið í 4-1 eftir tæpan hálftíma leik. Ryan Thomas og Guyon Fernandez skoruðu báðir tvö mörk í fyrri hálfleiknum og Bram van Polen innsiglaði síðan sigurinn í upphafi seinni hálfleiksins.

Það þurfti að stoppa leikinn í hálftíma vegna brennandi blysa á vellinum.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×