Fótbolti

Vandræðagemsinn breyttist í hetju og bjargaði mannslífi í miðjum leik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Vandræðagemsi en hetja.
Vandræðagemsi en hetja. vísir/getty
Serge Aurier, bakvörður Paris Saint-Germain, bjargaði mannslífi í landsleik með Fílabeinsströndinni um helgina.

Fílabeinsstrendingar voru að spila á móti Malí en eftir 20 mínútur fór Moussa Doumbia, leikmaður Malí, í flogakast og féll til jarðar. Aurier, var fyrstur til að aðstoða Doumbia en hann kom í veg fyrir að malíski leikmaðurinn gleypti tungu sína og léti lífið.

Fousseni Diawara, framkvæmdastjóri landsliðs Malí, er eðlilega þakklátur Aurier fyrir það sem hann gerði en honum fannst skrítið að ekki væri meira rætt og ritað um þetta atvik.

„Það er enginn að tala um hvað Aurier gerði og hvernig hann hjálpaði malíska leikmanninum. Doumbia féll til jarðar og var að gleypa tunguna þegar Serge var fyrstur á vettvang og bjargaði honum,“ sagði Diawara í viðtali við Goal.com. „Aurier var svo mættur á hótelið okkar á sunnudaginn að spyrja eftir Doumbia,“ sagði Diawara.

Bjargvætturinn er þekktur vandræðagemsi en hann var settur í bann hjá PSG í febrúar fyrir að hrauna yfir þjálfarann sinn Laurent Blanc á samfélagsmiðlum. Í fyrra var hann settur í þriggja leikja landsleikjabann fyrir að urða yfir dómarann Björn Kuipers á Facebook.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×