Skoðun

Vandræðagangurinn á þessu Sólheimafólki

Óli Tynes skrifar
Ég hef heyrt utan á mér að margir skilja ekki hvað er að gerast á Sólheimum í Grímsnesi. Hvers vegna eru forráðamenn þar alltaf að röfla um óöryggi í rekstri og jafnvel hugsanlega lokun. Mér finnst því rétt að reyna að útskýra það í stuttu máli. Og í stuttu máli hefur verið níðst á Sólheimum í stjórnkerfinu. Leyfið mér að rökstyðja það. Grundvöllur fjárveitinga til heimila fatlaðra er svokallað þjónustumat. Því meiri þjónustu sem fólkið þarf, þeim mun hærra er fjárframlagið. Lögum samkvæmt skal gera slíkt þjónustumat einu sinni á ári. Þrátt fyrir margítrekaðar beiðnir hafa Sólheimar ekki fengið slíkt þjónustumat frá árinu 2002. Sólheimar þurfa því árið 2011 að standa undir fjárþörf sem var skilgreind árið 2002.

Hvað þýðir þetta í tölum? Á Sólheimum eru 43 einstaklingar.



Fjárframlög eru tæpar 275 milljónir króna á ári. Annað sambærilegt heimili þjónustar 38 einstaklinga. Fjárframlög eru 362 milljónir króna á ári. Fimm færri einstaklingar, en fá 87 milljónum króna meira á ári.



Guð blessi þann góða stað og alla þá sem þar búa og vinna. Við berum ekki til þeirra nokkurn kala eða öfund. Þvert á móti gleðjumst við yfir því að þeir skuli njóta réttar síns. Við biðjum aðeins um að okkar fólk fái að sitja við sama borð.

NíðingsverkÞað er ekkert leyndarmál að Sólheimar eiga óvildarmenn í stjórnkerfinu. Atlögur þeirra að heimilinu er ekki hægt að telja á fingrum beggja handa. Eitt nýjasta dæmið er frá árinu 2009. Það var ár mikils niðurskurðar sem kom niður á allri þjóðinni. Sólheimar gera ekki nokkra athugasemd við að taka þátt í þeim niðurskurði. EN. Í leiðinni var notað tækifærið til þess að skera niður fjárframlög til Sólheima um 11 milljónir króna (4%) umfram alla aðra aðila í málaflokki fatlaðra. Auk þess var ákveðið að viðhalda þessari 11 milljóna króna skerðingu árin 2010 og 2011.



Ég veit ekki hvaða níðingur ákvað þetta, en hafi hann eilífa skömm fyrir. Vegna alls þessa höfum við þurft að draga úr þjónustu og öryggi íbúanna. Það hefur þegar þurft að segja upp hjúkrunarfræðingi, iðjuþjálfa og öryggisfulltrúa/umsjón með byggðahverfi. Öryggisleysi okkar á Sólheimum er því ekki bara komið til af því hversu miklir vandræðagemlingar við erum (þótt ekki skuli úr því dregið). Okkur finnst það einfaldlega skylda okkar að berjast fyrir okkar fólk.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×