Innlent

Vanbúin og illa mönnuð flutningaskip áhyggjuefni

Svavar Hávarðsson skrifar
Fernanda brennur. Ári áður en skipið brann var því strandað í Sandgerðishöfn.
Fernanda brennur. Ári áður en skipið brann var því strandað í Sandgerðishöfn. Mynd/Lhg
Það er mat Landhelgisgæslunnar að allt of algengt sé að hingað til lands komi vanbúin og illa mönnuð flutningaskip. Reynslan sýni ítrekað að bæði skip og áhafnir þeirra uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru til siglinga við landið.

Við suðvesturhorn landsins eru lang tíðustu siglingar farþegaskipa við landið. Við Suður- og Suðvesturland eru sérstaklega afmarkaðar siglingaleiðir til að beina skipum frá siglingahættum og á þær leiðir sem teljast öruggastar. Markmiðið er að takmarka hættu á slysum og koma í veg fyrir mengun hafs og strandar.

„Þau skip sem eru að brjóta þessar reglur eru erlend flutningaskip, og það virðist ákaflega erfitt fyrir þá að skilja til hvers er ætlast af þeim. Ýmiss samskipti sem við eigum við skipstjórnendur á þessum skipum vekja spurningar um hversu vel þeir eru að sér í siglingafræðinni. Af þessum samskiptum má stundum álykta að þeir séu vart starfi sínu vaxnir,“ segir Ásgrímur Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðarsviðs Landhelgisgæslunnar,

og bætir við. „Þetta er það sem við höfum mestar áhyggjur af varðandi siglingar við landið.“

Skipin sem hér um ræðir eru bæði frá erlendum skipafélögum, en einnig leiguskip íslenskra skipafélaga, að sögn Ásgríms. Þegar ekki er farið að reglum, er því komið á framfæri við Siglingaöryggisstofnun Evrópu (EMSA), þar sem tilvikin eru sérstaklega skráð.

Spurður hvernig hægt sé að snúa ofan af þessum vanda segir Ásgrímur það ekki einfalt mál. Mikilvægt sé að hafnarríkiseftirlit sé virkt og tekið á málum sem koma upp. Tilgangur þess er einmitt að stemma stigu við siglingum skipa sem uppfylla ekki alþjóðakröfur um aðbúnað, öryggi, mengun og atvinnuréttindi áhafna kaupskipa. Samkvæmt samkomulaginu er aðildarríkjum gert að skoða a.m.k. fjórða hvert kaupskip sem þangað kemur.

„Svo er mikilvægt að þeir sem eru að leigja hingað skip til flutninga við landið að þeir vandi valið við þær útgerðir sem verið er að skipta við, og ákjósanlegast væri ef topp útgerðir væru við siglingar hér, bæði við ströndina og til og frá landinu,“ segir Ásgrímur og tekur sem dæmi útgerðir skemmtiferðaskipa sem hafa sannað sig að vera til fyrirmyndar.

Ásgrímur segir að ný og gömul dæmi um sjóslys er varða flutningaskip tali sínu máli og ástæður þeirra slysa séu oft illskiljanlegar. Nýlega strandaði flutningaskipið Akrafell undan við Vatt­ar­nes, en í ljós kom að stýrimaður skipsins var sofandi þegar óhappið varð. Annað dæmi sé þegar Wilson Muuga strandaði árið 2006, skammt sunnan við Sandgerði.

Spurður um ástand skipanna sjálfra, bæði hvað varðar sjóhæfi þeirra og öryggismála, tekur Ásgrímur flutningaskipið Fernöndu sem dæmi, sem varð alelda úti fyrir Vestmannaeyjum fyrir um ári síðan og brann til kaldra kola - m.a. í Hafnarfjarðarhöfn.

„Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja. Mannskapurinn var illa þjálfaður til að takast á við eld, og til taka á móti þyrlu,“ segir Ásgrímur og bætir við að öfugt við fullyrðingar um annað þá hafi mikið vantað uppá að eldvarnir hafi verið í lagi um borð. „Það virtist engin hugsun hafa verið að baki einu eða neinu, og þveröfugt við allt sem varðar þjálfun íslenskra sjómanna,“ segir Ásgrímur og vísar til lýsinga starfsmanna Gæslunnar og slökkviliðsmanna sem fóru um borð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×