Fótbolti

Van Nistelrooy afhenti veikum Alfreð verðlaun

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tveir öflugir framherjar saman á sviðinu í kvöld.
Tveir öflugir framherjar saman á sviðinu í kvöld. mynd/aðsend
Alfreð Finnbogason, landsliðsmaður í knattspyrnu, var heiðraður á galakvöldi hollensku úrvalsdeildarinnar í kvöld fyrir að verða markakóngur á síðustu leiktíð.

Alfreð skoraði 29 mörk í 32 leikjum fyrir Heerenveen og er markahæsti leikmaður félagsins í efstu deild í sögu þess.

Hann tók við verðlaununum úr höndum Ruuds van Nistelrooys sem spilaði einnig með Heerenveen á sínum ferli en er nú frægastur fyrir að raða inn mörkum fyrir Manchester United og Real Madrid.

Alfreð er veikur en lét það ekki á sig fá og mætti prúðbúinn til að taka á móti verðlaununum.

„Ég fann fyrir veikindum í morgun og hitinn á sviðinu var aðeins of mikill fyrir mig. En ég fékk mér einn Red Bull sem hjálpaði mér aftur í gang,“ sagði Alfreð Finnbogason.

Markahrókurinn er frá keppni vegna meiðsla þessa dagana og verður því ekki með íslenska landsliðinu í leiknum gegn Tyrklandi í undankeppni EM á þriðjudaginn í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×