Enski boltinn

Van Gaal vill losna við Fellaini

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Marouane Fellaini var ekki góður á sinni fyrstu leiktíð með United.
Marouane Fellaini var ekki góður á sinni fyrstu leiktíð með United. vísir/getty
Marouane Fellaini gæti verið á leið frá Manchester United eftir aðeins eitt tímabil á Old Trafford, en samkvæmt frétt Daily Mail vill nýráðinn knattspyrnustjóri félagsins, Louis van Gaal, ekkert með hann hafa.

Fellaini var keyptur frá Everton fyrir 27 milljónir punda á lokadegi félagaskipta í fyrra og átti hreint skelfilega fyrstu leiktíð með Manchester United.

Van Gaal á að hafa sagt samstarfsmönnum sínum að Fellaini sé ekki „United-leikmaður“ og hefur beðið stjórnarformanninn Ed Woodward um að selja Belgann áður en næsta leiktíð hefst.

Fellaini átti mjög góð ár hjá Everton áður en hann gekk í raðir Manchester United þannig vitað er að hann getur spjarað sig í ensku úrvalsdeildinni og rúmlega það. Það er þó tæpt að United fái eitthvað nálægt þeim 27 milljónum sem það borgaði fyrir hann til baka.

Belgía er komin í átta liða úrslit HM þannig Fellaini, sem spilað hefur allar mínúturnar í síðustu þremur sigurleikjum liðsins í Brasilíu, verður fastur á HM eitthvað lengur.

Það virðist ólíklegt að miðjumaðurinn hárprúði fari með Manchester United í æfingaferðina til Bandaríkjanna 21. júlí, en þar mun liðið spila fimm leiki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×