Enski boltinn

Van Gaal verður ekki yfirmaður knattspyrnumála

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Verður Van Gaal áfram á Old Trafford?
Verður Van Gaal áfram á Old Trafford? vísir/getty
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, verður ekki yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu á næsta tímabili eins og götublaðið The Sun heldur fram í morgun. Þetta hefur Sky Sports eftir heimildum.

The Sun greindi frá því að Manchester United ætlaði að bjóða Van Gaal starf sem yfirmaður knattspyrnumála á næstu leiktíð en aðeins til eins árs. Hann myndi svo hætta eftir næsta tímabil eins og til stóð þegar þriggja ára samningi hans lýkur.

Með þessu áttu dyrnar að opnast fyrir José Mourinho að koma og taka við United-liðinu, en hann hefur verið ansi sterklega orðaður við stjórastöðuna á Old Trafford undanfarna mánuði.

Van Gaal og José Mourinho hafa starfað saman áður en Portúgalinn var undir stjórn Van Gaals hjá Barcelona á tíunda áratug síðustu aldar þegar Mourinho var að stíga sín fyrstu skref í þjálfarabransanum.

Louis van Gaal mistókst að koma Manchester United í Meistaradeildina á nýafstaðinni leiktíð en hann getur unnið fyrsta bikarmeistaratitil félagsins í tólf ár á laugardaginn þegar liðið mætir Crystal Palace í úrslitaleik á Wembley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×