Enski boltinn

Van Gaal leitar enn að fyrsta sigrinum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úr leik dagsins.
Úr leik dagsins. Vísir/Getty
Manchester United leitar enn að sínum fyrsta sigri undir stjórn Louis van Gaal í alvöru leik, en liðið gerði markalaust jafntefli gegn Burnley í fyrsta leik dagsins.

Burnley byrjaði betur og átti David Jones skot í slá úr aukaspyrnu. Lucas Jutkiewicz fékk einnig fínt færi eftir hörmuleg mistök Jonny Evans, en David De Gea varði.

Eftir þessi tvö færi rönkuðu gestirnir frá Manchester aðeins við sér og nýjasti leikmaður United, Angel Di María, átti frábæra sendingu á Robin van Persie sem lét Tom Heaton verja frá sér. Staðan var markalaus í hálfleik.

Síðari hálfleikur var afspyrnuleiðinlegur, en það dró af gestunum sem gáfu þó engin færi á sér. United gerði svo sannarlega tilkall til vítaspyrnu þegar boltinn fór í hönd Ashley Barnes innan vítateigs, en dómari leiksins Chris Foy lét sér fátt um finnast.

Lokaniðurstaðan varð markalaust jafntefli, en frammistaðan var afar döpur hjá Manchester United. Liðið er einungis með tvö stig eftir þrjá leiki gegn Swansea, Sunderland og Burnley. Eitthverjir hafa talið þetta auðvelda byrjun fyrir tímabilið hjá United, en svo er ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×