Enski boltinn

Van Gaal horfði á Nani meiða Di María

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Van Gaal var eflaust ekkert sérstaklega sáttur með Nani.
Van Gaal var eflaust ekkert sérstaklega sáttur með Nani. vísir/getty
Ángel Di María gæti bæst á meiðslalista Manchester United, en hann þurfti að fara í myndatöku eftir vináttulandsleik Portúgals og Argentínu á Old Trafford í gærkvöldi.

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, var í stúkunni og horfði upp á 59,7 milljóna punda manninn vera sparkaðan niður af Nani, öðrum leikmanni Manchester United, sem er á láni hjá Sporting í Portúgal.

Di María bar sig illa eftir atvikið sem kom upp á 18. mínútu og var utan vallar í nokkrar mínútur eftir það. Gerardo Martino, þjálfari Argentínu, tók hann þó ekki af velli fyrr en eftir 60 mínútur og setti Carlos Tévez, fyrrverandi leikmann United, inn á.

„Við höldum að þetta sé ekkert alvarlegt. Þetta var frekar fast spark og það kom smá skurður. Við sendum Di María í röntgenmyndatöku og erum að skoða myndirnar,“ sagði Gerardo Martino eftir leik.

Sjálfur var Di María hress á Twitter eftir leik og skrifaði: „Þetta var bara högg. Vonandi bólgnar þetta ekki meira svo ég geti spilað um helgina.“

Það yrði mikið áfall fyrir Manchester United að missa Di María í meiðsli en liðið á fyrir höndum erfiðan leik gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á Emirates-vellinum í Lundúnum á laugardaginn.

United-liðið er í miklum meiðslavandræðum, en frá eru leikmenn á borð við Phil Jones, Marcos Rojo, Daley Blind, Ander Herrera, Radamel Falcao og Jonny Evans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×