Enski boltinn

Van Gaal hættur að þjálfa

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Louis van Gaal átti glæsilegan feril.
Louis van Gaal átti glæsilegan feril. vísir/getty
Louis van Gaal, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, Barcelona, Bayern München og Ajax, er hættur að þjálfa en frá þessu greinir hann sjálfur í viðtali við hollenskt dagblað.

Þessi 65 ára gamli þjálfari átti stórmerkilegan og sigursælan feril en hann skaust upp á stjörnuhimininn með Ajax þegar hann gerði hollenska liðið að Evrópumeistara árið 1995.

Hann vann hollensku deildina þrisvar sinnum með Ajax og spænsku deildnia í tvígang með Barcelona. Hann sneri aftur til Hollands í eina leiktíð og vann úrvalsdeildina þar með AZ Alkamaar árið 2009 áður en hann gerði svo Bayern München að Þýskalandsmeistara árið 2010.

Van Gaal stýrði hollenska landsliðinu til bronsverðlauna á HM 2014 í Brasilíu og tók svo við Manchester United þar sem hann kvaddi með bikarmeistaratitli í maí í fyrra eftir nokkuð stormasama veru á Old Trafford.

„Í fyrra sagðist ég ætla að hætta en skipti svo um skoðun og sagðist ætla að taka mér frí. Nú er ég á því að ég sný ekki aftur í þjálfun. Það hefur svo margt gerst hjá fjölskyldu minni upp á síðkastið sem hefur verið vakning fyrir mig og sett hlutina í samhengi,“ segir Louis van Gaal í viðtali við Algemeen Dagblad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×