Enski boltinn

Van Gaal ekki á förum: „Sjáumst á næsta ári“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Það er ekkert fararsnið á Louis van Gaal, knattspyrnustjóra Manchester United, þrátt fyrir þráláta orðróma og fréttir þess efnis að Hollendingurinn verði látinn fara eftir tímabilið og José Mouriho taki við.

Van Gaal sendi ársmiðahöfum Manchester United bréf þar sem hann hvetur þá til að endurnýja miðana fyrir næsta tímabil og ítrekar að hann vill vinna titla sem stjóri United áður en hann lætur af störfum eftir næsta tímabil.

„Það er engin spurning í mínum huga að stuðningsmenn Manchester United eru þeir bestu í heimi og samband mitt við þá er mjög sérstakt,“ segir Van Gaal í bréfinu en fótboltavefurinn Goal.com greinir frá.

„Það er mitt helsta markmið að vinna titla fyrir stuðningsmennina og sérstaklega ykkur sem mætið á leikina í hverri viku.“

„Það vinna allir hörðum höndum að því að koma félaginu aftur á þann stall sem það á að vera. Ykkar hjálp er ómetanleg og leikmennirnir kunna vel að meta hana,“ segir Van Gaal.

Van Gaal er staðráðinn í því að klára samninginn sinn en hann var ráðinn til þriggja ára þegar hann tók við sumarið 2014. Hann hlakkar til að mæta aftur á næsta tímabili og virðist alveg sama um sögusagnirnar um Mourinho.

„Við vissum að þessi uppbygging myndi taka þrjú ár. Ég vildi bara gera tveggja ára samning en félagið vildi gera við mig þriggja ára samning. Ég skrifaði undir þrjú ár þannig við sjáumst á næsta ári,“ segir Louis van Gaal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×