Enski boltinn

Van Gaal: Vorum betra liðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Van Gaal var ekki sáttur með að fá bara eitt stig gegn Chelsea.
Van Gaal var ekki sáttur með að fá bara eitt stig gegn Chelsea.
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, var ósáttur með að fá á sig jöfnunarmark í uppbótartíma gegn Chelsea í dag.

Jesse Lingard kom United yfir með frábæru marki á 61. mínútu en Diego Costa tryggði Chelsea stig þegar hann skoraði í uppbótartíma. Lokatölur 1-1.

Van Gaal sagði að sínir menn hefðu átt að vera skynsamari á lokakaflanum þegar United var nánast í nauðvörn.

„Ég er mjög svekktur því við vorum betra liðið, aftur. Og við unnum ekki. Við fengum betri færi en okkur mistókst að vinna,“ sagði Hollendingurinn sem vísaði þarna til fyrri leiks United og Chelsea á Old Trafford sem lyktaði með markalausu jafntefli.

„Við spiluðum frábærlega þangað til það var stundarfjórðungur eftir. Við héldum boltanum ekki eins vel og ég vildi. Við vorum líka óheppnir og fengum á okkur mark. Þetta er ótrúlegt.

„Chelsea beitti löngum sendingum fram og setti meiri ákafa í sóknina en þú verður að halda boltanum betur og vera yfirvegaðri í varnarleiknum. Það gengur ekki að sparka boltanum frá sér að ástæðulausu.“

Van Gaal var einnig ósáttur með dómara leiksins, Michael Oliver, og sagði að Chelsea hefði fengið mikið af ódýrum aukaspyrnum.

„Svo voru það allar aukaspyrnurnar. Þetta voru ekki allt aukaspyrnur en dómarinn dæmdi þær samt undir lok leiksins,“ sagði Van Gaal og bætti við: „Hann leyfði Chelsea líka að taka hornspyrnu þegar uppbótartíminn var liðinn og flautaði svo af þegar við vorum komnir í skyndisókn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×