Fótbolti

Van Gaal: Viljum snúa taplausir heim

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Louis van Gaal setur stefnuna á sigur í lokaleik sínum sem þjálfari Hollands.
Louis van Gaal setur stefnuna á sigur í lokaleik sínum sem þjálfari Hollands. Vísir/Getty
Holland og Brasilía mætast í kvöld í leiknum um bronsið á HM í fótbolta. Brasilíumenn brotlentu eins og frægt er orðið gegn Þjóðverjum, en Hollendingar féllu úr leik gegn Argentínumönnum eftir framlengdan leik og vítaspyrnukeppni.

Louis van Gaal, þjálfari Hollands og verðandi þjálfari Manchester United, segir vonbrigðin mikil, en hann setur þó stefnuna á að ljúka leik í Brasilíu án þess að tapa leik - eitthvað sem hollensku liði hefur ekki áður tekist.

"Þetta voru mjög, mjög mikil vonbrigði og draumurinn er brostinn," sagði van Gaal, sem stýrir hollenska liðinu í síðasta sinn í kvöld, en hann tekur sem kunnugt er við liði Manchester United eftir HM.

"Draumurinn er ekki lengur til staðar því þetta snerist allt um að standa uppi sem sigurvegari. En verkefni okkar er ekki lokið. Við getum enn komist í sögubækurnar því Holland tapaði leikjum 1974, 1978 og 2010 (Holland tapaði úrslitaleik HM á þessum mótum).

"Við verðum að gera atlögu að þessu meti. Hollenskt lið hefur aldrei snúið heim ósigrað og það er markmið okkar. Í ræðu minni mun ég tala um að þetta sé síðasti leikurinn minn og ég vonast til að leikmennirnir færi mér kveðjugjöf í formi sigurs, svo við getum farið heim ósigraðir," sagði þjálfarinn og bætti við:

"Ég reyni að undirbúa þá sem best fyrir leikinn. Það væri afrek að leika sjö leiki á HM án þess að tapa."

Holland hefur aðeins einu sinni áður leikið um bronsverðlaun á HM. Það var árið 1998 á HM í Frakklandi þegar liðið beið lægri hlut fyrir Króatíu, 2-1.


Tengdar fréttir

Varamaðurinn Krul hetja Hollands

Holland er komið í undanúrslit heimsmeistaramótsins eftir sigur á Kosta Ríka í vítaspyrnukeppni. Liðið mætir Argentínu á þriðjudag.

Aðstæður munu ekki hafa áhrif á Van Gaal

Ryan Giggs telur að reynsla Louis Van Gaal hjá félögum á borð við Bayern Munchen og Barcelona muni hjálpa honum að taka við Manchester United sem er að mati Giggs stærsta félag heimsins.

Van Gaal: Börn munu ekki ná að sofna

Þjálfari hollenska liðsins skoraði á foreldra landsins að leyfa börnum sínum að horfa á leikinn þrátt fyrir að hann hefjist klukkan 10 um kvöld.

Van Gaal: Mexíkó erfiðari andstæðingur en Chile

Louis Van Gaal, landsliðsþjálfari Hollands og verðandi þjálfari Manchester United, segir að Mexíkó verði erfiðari andstæðingur en Chile, sem Holland vann í lokaleik riðlakeppninnar.

Ronald de Boer óttaðist van Gaal

Leikmenn Manchester United munu fá menningarsjokk þegar Louis van Gaal tekur við liðinu í sumar, að sögn Ronald de Boer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×